Sundlauganótt í mögnuðu myrkri

Sundlauganótt á Vetrarhátíð verður haldin laugardagskvöldið 4. febrúar en þá er frítt í sund í níu sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 18-23. Gestir fá að upplifa einstaka
kvöldstund í sundlaugunum þar sem ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi. Dagskráin í ár er afar fjölbreytt en meðal þess sem er í boði er jóga, dans, samflot, kajaksiglingar í sundi, sundpóló, sundlaugadiskó, Improv Ísland og tónleikar með Jóni Jónssyni. Þær sundlaugar sem taka þátt í Sundlauganótt að þessu sinni eru:Álftaneslaug, Árbæjarlaug, Ásvallalaug, Klébergslaug, Lágafellslaug, Laugardagslaug, Salalaug (Sundlaugin Versölum), Sundlaug Kópavogs og Seltjarnarneslaug.

 

Norðurljósahlaup WOW
Á laugardeginum 4. febrúar  fer fram Norðurljósahlaup WOW í fyrsta skipti en um er að ræða skemmtiskokk þar sem þátttakendur verða skeyttir upplýstum armböndum sem blikka í takt við hlaupatakt sinn. Hlaupið er 5 km. og hefst við Hörpu kl. 19 og síðan er hlaupið um miðbæinn. Engin tímataka er í hlaupinu sem nú er haldið í fyrsta skipti. Nánari upplýsingar er að finna á: Nordurljosahlaup.is.

Snjófögnuður
Við fögnum svo snjó og birtu í Bláfjöllum sunnudaginn 5. febrúar á lokadegi Vetrarhátíðar
þar sem íbúum höfuðborgarsvæðisins er boðið að njóta skemmtilegrar viðburðadagskrár frá kl. 10-17. Frítt er fyrir 16 ára og yngri í fjallið og 20% afsláttur af skíðaleigu. Tilboð á veitingum í veitingasölu.

 

Myrkvun miðborgarinnar
Vetrarhátíð lýkur svo með myrkvun miðborgarinnar kl. 21-22 sunnudaginn 5. febrúar. Það er gert til að vekja athygli á hugmyndinni um myrkurgæði og til að gera fólki kleift að upplifa himinhvolfið í sinni tærustu mynd. Rafmagn verður ekki tekið af íbúðarhúsnæði og fólki er í sjálfsvald sett hvort það slekkur ljósin á áðurnefndum tíma eður ei. Það skal líka tekið fram að þessi myrkvun hefur engin áhrif á öryggiskerfi og öll umferðarljós í borginni eru virk.

Lykilbyggingar í litum norðurljósanna
Í tengslum við Vetrarhátið eru á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu upplýstar í einkennislitum hátíðarinnar, grænum og fjólubláum. Þá eru ljóslistaverk á nokkrum lykilbyggingum; Hallgrímskirkju, Hörpu, Ráðhúsi Reykjavíkur. Aðrar upplýstar byggingar eru m.a. Kópavogskirkja, Perlan, Háskóli Íslands, Borgarleikhúsið, Stjórnarráðið, Þjóðminjasafnið, Listasafn Íslands, Safnahúsið, Þjóðleikhúsið, Íslensk erfðagreining, Höfði og Menntaskólinn í Reykjavík. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu lýsa upp lykilbyggingar eins og Bessastaði, Lágafellskirkju, Félagsheimilið Hlégarð, Seltjarnarneskirkju, Gróttuvita og Ráðhús og Byggðasafn Hafnarfjarðar. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í þessu samspili ljóss og myrkurs á Vetrarhátíð.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0