Ef saga hans er sönn var hann var kominn yfir sjötugt þegar hann lagði upp í ferðina sem gert hefur nafn hans frægt um víða veröld. Tónverk, kvikmyndir, skáldsögur og fjöldi málverka tengjast honum og sögu hans og á Írlandi þar sem hann var fæddur seint á fimmtu öld er persóna hans umvafin goðsögnum og helgisögum. Nafn hans var Naomh Bréanainn en kunnastur er hann undir nafninu Brendan sæfari.
Brendan var samtíðarmaður hins merka klerks og trúboða Kolumba og er ævisaga hans, Vita Sancti Columbae, elsta heimild (679 EK) sem varðveist hefur um Brendan. Helsta heimildin er þó ævisaga hans sjálfs Navigatio Sancti Brendani Abbatis sem ekki er vitað hver reit eða hvenær. Elsta handrit hennar er frá 12. öld.
Sjö ára svaðilför Brendans og félaga
Á gamals aldri, eftir að hafa þjónað sem ábóti í fjöldamörg ár, ákvað Brendan einhvern tímann á milli árana 512 og 530 EK, að leggja upp í ferð í leit að “Eyju hinna blessuðu” sem talið var að lægi vestur af Írlandi. Í ferð með Brendan voru 14 munkar og 3 skósveinar (sem allir dóu í ferðinni) en farkosturinn var kúði, húðbátur einn mikill sem Brendan lét smíða á Kerry strönd og var greinilega hið traustasta fley því ferðin var hin mesta svaðilför sem varði í 7 ár. Fljótlega lentu guðsmennirnir í hafvillum og komu fyrst á óbyggða eyju þar sem einn skósveinanna týndi lífinu.
Áleiðis til Eyju hinna blessuðu
Þaðan sigldu þeir til Fjáreyja og eftir stutta viðdvöl þar á meðal sauðanna, strönduðu þeir bátnum á baki stórfisks sem hét Jasconíus og þeir héldu að væri eyja. Þeir áttu fótum sínum fjör að launa eftir að hafa kveikt eld á hnakka fisksins. Áfram héldu þeir til Eyju fuglanna, og lentu þar á eftir í mikill þoku. Er þeir komust út úr mistrinu blöstu við þeim svífandi kristalar. Nokkru seinna rákust þeir á eyju sem var numin af þöglum munkum og svo aðra þar sem afar sterkir og stórir menn höfðust við og sem hentu að þeim glóandi grjóthnullungum. Að lokum komust þeir til “Eyju hinna blessuðu” og fengu að vera þar um stund og hvíla lúin bein, uns þeir snéru heim aftur til Írlands fullir fögnuði.
Og þannig fór með sjóferð þá.
Í kjölfar Brendans sæfara
Í þeim mörgu bókum sem skrifaðar hafa verið um Brendan leitast höfundar oftast við að gera ferðasögu Brendans trúverðuga og túlka hana á ýmsa vegu. Sumir halda því fram að hann hafi ekki siglt í norður eða vestur, heldur haldið til Kanarí-eyja og Madeira. Aðrir eru vissir um að Fjáreyjar séu Færeyjar, kristalarnir svífandi hafi verið ísjakar og risarnir sem grýttu þá eldfjöll á Íslandi.
Eins og flestir vita var sægarpurinn Tim Severin svo sannfærður um að Brendan hefði siglt um norðurhöfin að hann smíðaði sér álíka fley og talið er að Brendan hefði þurft til að fara sína ferð og sigldi því síðan að frá Írlandi, til Færeyja, og þaðan til Íslands og síðan vestur að ströndum N-Ameríku. Hann taldi að með ferð sinni væri hann að renna stoðum undir arfsögnina af Brendan.
Texti : Svanur Þorkelsson