Svanur Þorkelsson til liðs við Land & Sögu

Landi & Sögu hefur bæst öflugur liðsauki, Svanur Þorkelsson, en fróðleikspistlar hans um sagnfræði og þjóðleg málefni hafa vakið mikla athygli, fyrst sem bloggfærslur og síðar á Facebook á síðunni „Þjóðlegur fróðleikur“. Það er okkur því einskær ánægja að kynna þennan fjölfróða og afkastamikla penna til sögunnar en skrif hans verða fastur liður í blöðum okkar sem og á heimasíðunni.
„Ég er íslenskur sveitastrákur. Fæddur og uppalinn á litlum sveitabæ á Snæfellsnesi. Ólst upp við sögur af tröllum og álfum þar sem engi, hólar, fjöll og fossar buðu upp endalaus ævintýri á sumrum. Á veturna þegar hrímþursar óðu um í frosti og fönn fyrir utan túngarðinn og stjörnubjartur himinn var baðaður í norðurljósum var ekkert betra en að hlusta á afa Gísla lesa upphátt úr Maður og kona og Piltur og stúlka,“ segir Svanur þegar hann er beðinn um að segja á sér deili fyrir lesendur. „Seinna þegar fjölskyldan fluttist til Keflavíkur varð bernskan að skólagöngu, fótbolta og bókalestri. Litla bókasafnið í Keflavík var lesið, röð eftir röð, og við það kviknaði áhugi minn á mannkynssögu, landafræði, tónlist, leynilöggum og sorglegum örlögum elskenda víða um heim. Sem unglingur á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar varð ég uppnuminn af þeim þjóðfélagsbreytingum sem þá áttu sér stað og reyndi að taka þátt í þeim öllum. Ég lauk formlegri skólagöngu á Núpi í Dýrafirði með Gagnfræðapróf og gerðist kommúnískur hippi. Ég hef starfað ýmislegt um ævina, um tíma var ég lögga í Keflavík og Vestmannaeyjum, seinna útvarpsstjóri og stofnandi Útvarps Suðurlands til að nefna aðeins tvennt. En lengst af hef ég starfað við að segja útlendingum sögur í ferðum um landið.“

Nýjar kenningar og hugmyndir um söguna

Eins og þeir vita sem lesið hafa pistla Svans fjalla þeir um þjóðlegan fróðleik af margvíslegum toga. En hvaðan kemur honum sagnfræðiáhuginn sem hefur orðið uppspretta að svo mörgum hugleiðinum? Svanur svarar því til að með honum í gegnum tíðina hafi ætíð blundað löngun til að skilja samhengi hluta, einkum mannlegra samskipta. „Saga og fornleifafræði hafa verið mér áhugamál frá bernsku. Eins og allir vita, komast fáir Íslendingar hjá því að verða „skúffuskáld“ og þessi árátta að skrifa niður þanka mína þjáði mig og gerir enn, bætir hann við kíminn. „Svo gekk öld bloggs og Fésbókar í garð og ég stóðst ekki lengur mátið heldur hóf að birta stutta pistla, fyrst á blog.is og seinna á Fésbók.“

Það sem gerir skrif Svans ekki síst áhugaverð er að þau endurspegla oftar en ekki kenningar og hugmyndir um söguna sem stangast að einhverju leyti á við viðteknar skoðanir um liðna tíð. Svanur tekur undir þetta. „Íslendingar gjalda þess að eiga söguritara sem skrifuðu sögu lands þjóðar frá upphafi mannaferða á landinu. Þessi “saga” er kennd í skólum sem ginheilagur sannleikur og þótt ýmislegt hafi komið í ljós, einkum í seinni tíð, sem ekki stenst það sem tólftu og þrettándu aldar fræðimenn okkar rituðu, gætir mikils trega hjá þjóðinni til að hleypa að einhverju nýju,“ útskýrir Svanur. „Mér finnst söguskoðun í ljósi nýuppgötvaðra staðreynda vera ákaflega spennandi viðfangsefni en hef samt varann á eins og Ari fróði og „Hafa skal það sem sannara reynist“ eða eins og Þórarinn Eldjárn orðaði það: „Hafa skal það sem sannara reynist ef hvorugt er rétt.“

Að rifja upp staðhætti og atburði

Það blasir því við að lesendur Lands % Sögu eiga von á fróðlegu og áhugaverðu efni úr penna Svans og framlag hans eflaust mörgum mikið tilhlökkunarefni. Sjálfur hlakkar Svanur til að deila hugrenningum sínum og hugðarefnum með lesendum.
„Að fá tækifæri til að koma hugðarefnum minum á framfæri í fjöllesnum miðlum á borð við Land & Sögu og Icelandic Times er mér mikil hvatning til að vinna betur úr því efni sem ég hef þegar í handraðanum, og kafa dýpra í margvíslegar sagnfræðilegar kenningar um landið og þjóðina sem það hefur byggt. Ég er mjög veikur fyrir orðsifjafræði sem ég tel að geti verið ákveðið sterkt leiðarljós við söguskoðun, ég leitast við að fylgjast með erfðafræðilegum nýjungum og uppgötvunum sem hafa þegar nánast gjörbreytt söguskilningi okkar og ég hef mjög gaman að rifja upp staðhætti og atburði og mannlegar athafnir sem tengjast þeim en hafa einhvern veginn lent á milli stafs og hurðar á þeirri öld upplýsingaofgnóttar sem við lifum á. Úr þessu efni er mikið að moða og ég ætla að gera mitt besta til að deila því á hnitmiðuðu og og vonandi skemmtilegu máli við lesendur.“

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0