Teikningasafn Halldórs Péturssonar

 afhent Þjóðminjasafninu til varðveislu

Einn helsti teiknari á Íslandi á seinni hluta 20. aldar var Halldór Pétursson (1916-1977). Í tilefni af aldarafmæli hans á síðasta ári gáfu Ágústa, Halldóra og Pétur, börn Halldórs, safn föður síns af teikningum til Þjóðminjasafns Íslands.

Ævistarf Halldórs var að meginþræði bundið við auglýsingateiknun, en samhliða teiknaði hann skopmyndir, myndskreytti bækur og vann ýmis konar teikningar, meðal annars fyrir Morgunblaðið. Í hugum heillar kynslóðar sem las bláa bók með skólaljóðum eru myndskreytingar Halldórs í þeirri bók eftirminnilegur minnisvarði um verk hans. Myndir hans í Vísnabókinni hafa fylgt nokkrum kynslóðum Íslendinga frá miðbiki 20. aldar til okkar daga. Verk Halldórs höfðu mótandi áhrif á sýn þjóðarinnar bæði á bókmenntaverk en líka á spaugilegri hliðar mannlífsins í gegnum skopmyndir hans.

Við andlát Halldórs var hans minnst svo: „Með honum féll í valinn, langt fyrir aldur fram, einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar, listamaður, sem um árabil spilaði á þá strengi þjóðarsálarinnar sem skærast hljómuðu. Með myndum sínum, málverkum jafnt sem einstæðum karikatúr, hefur hann skráð nafn sitt í listasögu íslenzku þjóðarinnar og það nafn gleymist seint.“

Þjóðminjasafni Íslands er mikill fengur að því að fá teikningasafn Halldórs Péturssonar til varðveislu og þjóðinni að hafa aðgang að safni hans. Unnið verður að skráningu þess á næstu misserum.

Halldór Kiljan Laxnes
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0