Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum frá Alþingi 1928 þar sem segir m.a. „Frá ársbyrjun 1930 skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga“. Í dag er þjóðgarðurinn 228 km² og teygir sig frá norður strandlengju Þingvallvatns í átt að fjallahringnum sem umleikur staðinn.
Þingstaðurinn
Þingvellir eru einn mikilvægasti menningarminjastaður á Íslandi þar sem meginþræðir sögu þjóðarinnar eru ofnir, allt frá upphafi landnáms á 9. öld fram til þessa dags. Saga Þingvalla frá stofnun Alþingis um 930 gefur innsýn í það hvernig landnemabyggð á víkingaöld skipulagði samfélag sitt frá grunni og þróaðist áfram. Á Þingvöllum koma einnig saman á einum stað margvísleg náttúrufyrirbæri sem einungis örfáir staðir á jörðinni geta státað af. Samspil sögunnar og hinnar sérstæðu leikmyndar náttúrunnar gerir staðinn einstakan.
Minjasvæðið á Þingvöllum, þar sem Alþingi var haldið, á sér enga hliðstæðu. Þetta er eini germanski þingstaðurinn þar sem leifar af stjórnsýslumannvirkjum eins og Lögbergi, Lögréttu og Biskupabúð hafa varðveist. Á svæðinu er að finna leifar margra mannvirkja sem tilheyrðu þingi og þinghaldi frá 10. öld og allt fram á 18. öld. Minjasvæðið á Þingvöllum er einnig einstakt sem heild þar sem enn mótar þar fyrir stórum hluta þingbúða á yfirborði og hægt er að gera sér grein fyrir umfangi og heildarskipulagi þingsvæðisins.
Síbreytileg náttúra
Þingvellir eru einstakir frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Hin jarðfræðilega sérstaða felst fyrst og fremst í því að óvíða eða hvergi í veröldinni sjást merki svokallaðra flekaskila jarðskorpunnar betur en þar. Gjárnar, sem eru höfuðeinkenni í jarðfræði Þingvalla, myndast þar sem tveir jarðskorpuflekar eru að færast í sundur og landið milli þeirra gliðnar og sígur. Sigdældin á Þingvöllum sést einstaklega vel á yfirborði og á hana var bent þegar flekakenningin, sem er grunnur að nútímahugmyndum er varða skilning manna á jarðfræði og landmótun, var að mótast. Sigdældin er meðal skýrustu dæma á þurru landi þar sem unnt er að sjá og skynja gliðnun jarðskorpufleka á úthafshrygg. Þingvellir og umhverfi Þingvallavatns hafa því ómetanlegt gildi sem jarðfræðilegur minnisvarði, ekki aðeins fyrir Ísland heldur á heimsvísu. Lífríki Þingvallavatns er einstakt á heimsvísu. Í vatninu hafa þróast fjórar gerðir af bleikju auk þess sem þar er að finna einstakan urriðastofn, frægan fyrir langlífi og mikla stærð. Urriðinn, sem getur orðið meira en 30 pund, er talinn hafa orðið innlyksa í vatninu skömmu eftir að ísöld lauk og land tók að rísa.
Á vatnasviðinu er mikil úrkoma. Um 9/10 af innstreymi vatns í Þingvallavatn kemur neðanjarðar eftir sprungum að vatninu. Ungur aldur hraunanna gerir það að verkum að upptaka steinefna er mikil í grunnvatninu sem er ein af undirstöðum fjölbreytts lífríkis í Þingvallavatni.
Tákn sjálfstæðis
Þingvellir urðu að þýðingarmiklu sameiningartákni í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Sumarið 1798 var síðasta þingið haldið á Þingvöllum. Eftir að þingið var lagt af voru Þingvellir hljóður staður, utan alfaraleiðar um nokkurn tíma. Þegar svo straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu náðu til Íslendinga í upphafi 19. aldar voru saga og náttúra Þingvalla vakin til lífsins. Þingvellir fengu lifandi hlutverk í þjóðlífinu sem tákn um sjálfstæði.
Hið forna þing var ofarlega í hugum fólks og fornhetjunar voru vaktar til lífsins í kvæðum og ljóðum. Þjóðernisvakningin varð til þess að umræða um staðsetningu Alþingis var mikil. Skiptar skoðanir voru um hvar það skyldi staðsett en strax komu upp raddir um að Alþingi skyldi vera á Þingvöllum. Árið 1843 gaf Kristján konungur VIII út konungsúrskurð um stofnun þings á Íslandi sem nefnast skyldi Alþingi og kom það fyrst saman 1. júlí 1845 í Latínuskólanum í Reykjavík. Mis formlegir Þingvallafundir voru þó haldnir á gamla þingstaðnum allt til ársins 1907. Á þeim var stjórnmálabaráttan í landinu skipulögð og málin búin í hendur þeim sem báru þau fram á Alþingi og fyrir stjórnvöld.
Vegna Þingvallafundana og sjálfstæðisbaráttunnar festust Þingvellir í sessi á ný sem helsti samkomustaður þjóðarinnar. Hér hafa því verið haldnar reglulega stórhátíðir þegar þjóðin telur tilefni til. Ein sú mikilvægasta var líkast til stofnun lýðveldisins á Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944. Mikill mannfjöldi var saman kominn á Völlunum við Öxará þrátt fyrir rigningu og rok lengi dags. Gestir létu þó ekki rigninguna á sig fá enda dagurinn einn sá mikilvægasti í sögu Íslands. Á Lögbergi fór fram forsetakjör þar sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri var kjörinn forseti.
Á heimsminjalista UNESCO
Ríkisstjórn Íslands tilnefndi Þingvelli á heimsminjaskrá UNESCO til nefndar um arfleifð þjóðanna (World Heritage Committee, WHC) vegna einstæðs menningarlandslags. Staðir á heimsminjaskránni eru alþjóðlega viðurkennd verndarsvæði sem hafa yfirleitt mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Á fundi heimsminjanefndarinnar í júlí 2004 var skráning Þingvalla staðfest sem menningarlega mikilvægur staður fyrir alla heimsbyggð. Náttúra Þingvallasvæðisins er á yfirlitsskrá yfir staði á Íslandi sem gert er ráð fyrir að tilnefna en samkvæmt henni yrði tilnefningunni bætt við núverandi skráningu Þingvalla.
Texti: Þingvellir þjóðgarður