Frá Veiðivötnum, þar sem stærsta hraungos í heimi eftir síðustu ísöld átti sér stað

Þjórsárhraun

Veitið Þjórsárhrauni og Bárðarbungu verðskuldaða athygli. Árið 1951 birtist grein í Lesbók Morgunblaðsins eftir ungan jarðfræðing, Guðmund Kjartansson. Þar lýsir hann miklu hrauni, sem hann nefnir Þjórsárhraun og birtir fyrsta kortið af útbreiðslu unga hraunsins um Suðurland og alla leið á haf út hjá Stokkseyri og Eyrarbakka. Við vitum nú að Þjórsárhraun er stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni síðan Ísöldinni lauk, eða síðastliðin tíu þúsund ár. Hraunið á upptök sín í Heljargjá í Veiðivötnum, en kvikan kemur úr eldstöðinni Bárðarbungu undir Vatnajökli. Bárðarbunga varð þar með eitt merkasta eldfjall jarðar. Þetta risastóra eldgos frá Bárðarbungu varð fyrir um 8000 árum og framleiddi kvikumagn yfir 25 rúmkm, sem er nær helmingi meira en kom upp í Skaftáreldum árið 1783. Gosið sem framleiddi Þjórsárhraun er stórt en samt er sprengigosið í Tambora í Indónesíu árið 1815 nær helmingi stærra, eða rúmlega 40 rúmkm. (Einn rúmkílómeter er kassi sem er 1 kílómeter á hvern kannt). Til samanburðar kom upp 1,3 rúmkm. af hraunkviku upp árið 2014 þegar Holuhraun rann frá Bárðarbungu. Öll nýju gosin á Reykjanesi eru örsmá í samanburði við það. Þegar Bárðarbunga tekur stóran kipp, eins og jarðskjálftana núna hinn 14. janúar 2025, þá er viðbúið að jarðvísindamenn taki einnig kipp og fylgist vel með, því enginn veit hvaða ósköp gætu verið framundan. Sumir af þessum nýju skjálftum nálguðust 5 af stærð. Það er því full ástæða til að athuga málið. Þetta mikla eldfjall situr nákvæmlega í miðjunni yfir heita reitnum sem liggur í möttlinum undir jarðskorpunni á Íslandi. Þjórsárhraun streymdi um 140 km leið frá upptökum og til sjávar en ekki er vitað hve langt hraunið rann eftir hafsbotninum sunnan Íslands. Talið er að hraunið hafi flatarmál sem svarar um 1000 ferkm og meðalþykkt um 22 m. Árni Hjartarson ritaði merka grein um Þjórsárhraun í Náttúrufræðinginn (1988).
Hraunið rann frá Veiðivötnum og vel yfir hundrað kílómetra í sjó fram við Eyrarbakka, á mynd
Á Fjallabaki en hraunið rann frá Veiðivötnum og niður í sjó
Bárðarbunga, stærsta eldstöð landsins, séð frá Vonarskarði
Búrfellsvirkjun í Þjórsárdal
Frá Veiðivötnum
Eldsumbrot ef verða, eru stærri frá Bárðarbungu en nokkurri annarri eldstöð á Íslandi
Kvikan sem myndaði Þjórsárhraun er frá Barðarbungu, en gosið var i sprungurima Bárðarbungu sem liggur til SV af öskjunni miklu, í Heljargjá og Veiðivötnum. Askjan erum 65 km2 að flatarmáli og lögun hennar kemur best fram þegar jökullinn er fjarlægður, eins og í mynd Helga Björnssonar (2009) sem fylgir. Þjórsárhraunið hefur flæmst um Landsveit, Gnúpverjahrepp, Skeið og Flóa. Stærstu fljót Suðurlands, Þjórsá, Hvítá og Ölfusá streyma með jöðrum hraunsins. Það er talið að um 27 flæðigos hafi orðið á sögulegum tíma ínnan eldstöðvakerfisins sem liggur suðvestur frá Bárðarbungu. Þar er til dæmis Tröllahraun (1862 til 1864), Frambruni (13. öld), Vatnaöldur (870), Veiðivötn (1477) og fleiri (1711 til 1729). Þjórsárhraun valdi sínn farveg til sjávar eftir fljótum sem voru fyrir í landslaginu. Fljótin sem nú streyma með eða á Þjórsárhrauni eru kjarninn í vatnsorkuvirkjun Íslands. Þá vaknar spurning um hversu viðkvæm eru vatnsorkuverin og uppistöðulón fyrir gosum í framtíð? Ég hóf störf árið 1959 sem aðstoðarmaður á jarðbor við rannsókn jarðmyndana við Sigöldu og einnig síðar við Búrfell og víðar. Það ýtti rækilega undir áhuga minn á jarðfræði. Búrfellsstöð var reist á árunum 1966 til 1972 210 MW að stærð. Svo komu þær hver á fætur annari, Sigöldustöð 150 MW 1973, Hrauneyjafossstöð 210 MW 1978, Sultartangastöð 120 MW 1999, Vatnsfellsstöð 90 MW árið 2001, Búðarhálsstöð 95 MW 2014. Á teikniborðinu eru þrjár til viðbótar; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Það var lítið eða ekkert rætt um hættu sem virkjunum gæti stafað af hraunrennsli á þeim árum sem ég var þarna við störf. Þjórsárhraun var talið svo gamalt að slíkt gos var ekki tekið með í reikninginn. Slík risagos voru talin hafa myndast fljótlega eftir að jökulfarginu létti strax eftir að Ísöld lauk og því ekki inn í myndinni í dag eða í náinni framtíð. Sú kenning er við lýði enn í dag, en er þar með hægt að útiloka stór hraungos frá Bárðarbungukerfinu? Ég held að það sé brýn nauðsýn að endurskoða málið, einfaldlega vegna þess að það gæti verið svo mikið í húfi fyrir allan orkubúskap Íslands. Það er ljóst að kvika heldur áfram að safnast fyrir undir öskju Bárðarbungu.
Texti:Haraldur Sigurðsson
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0