Vopnafjörður liggur milli Bakkafjarðar og Héraðsflóa á Austurlandi, og í þorpinu og sveitinni inn af firðinum búa um 600 manns. Á Vopnafirði er ein stærsta og fullkomnasta fiskvinnsluver á uppsjáfarfiskum, síld, makríl og loðnu í heiminum. Auk þess renna þrjár laxveiðiár, sem þykja með þeim allra bestu á Íslandi, Hofsá, Selá og Vesturá í fjörðinn. Eitt af höfuðskáldum Íslands, Gunnar Gunnarsson (1889-1975) sleit barnsskónum í firðinum. Það voru þrír landnámsmenn sem byggðu Vopnafjörð, fóstbræðurnir Hróaldur Bjóla og Eyvindur Vopni, en fjörðurinn er kenndur við hann, auk Lýtings Arinbjarnarsonar. Á tímum einokunarverslunarinnar frá 1602 til 1787, var Vopnafjörður einn af þremur verslunarstöðum í öllum Austfirðingafjórðungi. Vopnafjörður var helsta brottfararhöfn Vesturfara, ekki aðeins af Austurlandi, heldur landinu öllu í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu. Vopnafjörður, er einn veðursælasti staður á Íslandi.
Vopnafjörður – A7R IV, RX1R II, A7RIII
Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson