Sveinn Ingi Ólafsson, verkfræðingur hjá Verkís, var meðal fulltrúa í íslensku viðskipta- sendinefndinni sem hélt í marsmánuði til Georgíu. Sveinn Ingi, sem var framkvæmdastjóri Verkís frá 2008 til 2021, sinnir enn ýmsum verkefnum og þar á meðal rekstri útibús Verkís í Tbilisi.

Sveinn Ingi er annar frá hægri á myndinni.
Markmið heimsóknar viðskiptasendinefndarinnar var að skoða möguleika á aukinni samvinnu við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku og grænna lausna þar sem kastljósinu var einkum beint að jarðvarma, fjárfestinga í loftslagslausnum og vatnsaflsvirkjunum. Verkís hefur unnið að verkefnum í Georgíu um árabil eða frá 2008, að því er Sveinn útskýrir, og hafa þau flest tengst nýtingu vatnsafls.
„Georgía er rík af vatnsafli enda mynda Kákasusfjöllin norðurlandamæri ríkisins. Georgía er eins og flestir vita fyrrum Sovétlýðveldi og var raunar einnig undir rússneskri stjórn fyrir daga Sovétríkjanna. Aftur á móti var landið sjálfstætt um aldir og á sér langa og litríka sögu. Landsmenn eru þjóðræknir, sérstaklega gestrisnir og stoltir af sínum hefðum í matargerð og vínrækt,“ bætir hann við.
Að sögn Sveins hafa verkefni Verkís í Georgíu oft verið unnin í samstarfi við Landsvirkjun Power (LVP), sem er dótturfyrirtæki Landsvirkjunar. „Í fyrstu ráðgjafarverkefnunum lögðu LVP og Verkís til starfsmenn með áratuga reynslu af þróun vatnsorkuverkefna á Íslandi. Í Georgíu var mikil þörf fyrir verkfræðinga með mikla reynslu af vatnsorku vegna þess að á Sovéttímanum kom sú reynsla mest frá Rússlandi en það var ekki í boði á árunum eftir innrás Rússa í Georgíu 2008.“

Stefnt á að auka hlut endurnýjanlegrar orku
Samstarfsaðilar Verkís í Georgíu eru aðallega fyrirtæki og sjóðir sem vilja fjárfesta í vatnsorkuverum en stjórnvöld þar í landi stefna að því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í rafmagnsframleiðslunni en orka til rafmagnframleiðslu kemur að mestu frá vatnsafli og jarðgasi en í seinni tíð hafa bæst við vind- og sólarorkuver. „Fyrirkomulagið á nýtingu vatnsafls er þannig að stjórnvöld gefa út nokkurs konar rannsóknarleyfi fyrir vænlega kosti til áhugasamra aðila að undangengnu útboði. Leyfishafinn lætur gera hagkvæmniathugun og tekur síðan ákvörðun um hvort hann vill ráðast í framkvæmdir,“ útskýrir Sveinn Ingi. „Mörg verkefni Verkís í Georgíu hafa einmitt verið að forhanna virkjanir og vinna hagvæmniathugun sem oft innfelur líka umhverfismat og jarðfræðiúttekt. Verkís hefur einnig fullhannað virkjanir og veitt verkfræðiráðgjöf á byggingartíma virkjananna. Stærsta verkefnið af því tagi var Dariali virkjunin en hún er rúmlega 100 MW, en nýjasta dæmið er Akhalkhalaki sem er um 20 MW og var einmitt einn áfangastaðurinn í opinberri heimsókn forseta Íslands í mars síðastliðnum.“

Áskoranir í nýju umhverfi – aukin reynsla
Vert er að benda á í þessu sambandi að Akhalkhalaki verkefnið hefur sérstöðu þar sem að LVP og Verkís tóku að sér hagkvæmniathugun fyrir hlut í fyrirtækinu sem átti verkefnið. Þegar hagkvæmniathugunin benti til þess að verkefnið myndi borga sig ákvað LVP að fjárfesta í verkefninu og á því um fimmtungshlut í virkjuninni og Verkís á enn lítinn hlut. „Ávinningurinn af því að vinna verkefni í öðrum löndum en Íslandi felst svo aðallega í því að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja nýju umhverfi og kynnast því hvernig önnur lönd vinna að orkuöflun en hvorttveggja eykur víðsýni og reynslu.“
Sveinn Ingi bendir ennfremur á að opinber heimsókn forsetans til Georgíu hafið vakið athygli stjórnvalda þar á talsverðri reynslu Verkís og LVP af verkefnum á sviði vatnsorku í Georgíu. „Þátttakendur í ferðinni fengu upplýsingar um framtíðaráform stjórnvalda í orkumálum og hittu fjölda áhrifafólks en slík sambönd koma að gagni við áframhaldandi verkefnasókn í landinu,“ segir Sveinn.

Ráðgjafaverkefni víða um heim, byggð á langri reynslu
Að sögn Sveins á Verkís dótturfyrirtæki í Noregi og á Grænlandi sem bjóða almenna verkfræðiþjónustu á þeim mörkuðum með eigin starfsfólki en oft einnig í samstarfi við Verkís á Íslandi. Þá hefur félagið einnig unnið ráðgjafarverkefni vegna nýtingar jarðhita víða um heim um áratugaskeið. „Þau verkefni hafa verið af ýmsum toga og verið unnin fyrir ýmiskonar aðila,“ segir Sveinn. „Þróunarbankar eins og Alþjóðabankinn kaupa oft sérfræðiráðgjöf á þessu sviði, en einnig stjórnvöld þeirra landa sem vilja nýta jarðhitann og fjárfestar sem hyggjast byggja jarðgufuvirkjanir.“
Um þessar mundir er Verkís ráðgjafi eiganda sem er að byggja 35 MW jarðgufuvirkjun í Menengai í Kenya. Þar er Verkís svokallaður „Owners Engineer“ og rýnir alla hönnun og fylgist með framkvæmdum alverktaka sem útvegar vélbúnaðinn og byggir virkjunina. „Þarna sem annars staðar er auðvitað byggt á langri reynslu Verkís af uppbyggingu jarðhitavirkjana á Íslandi,“ segir Sveinn Ingi.
Það eru mörg stór verkefni í gangi og fram undan hjá Verkís, meðal annars eru það

í Akhalkakali.
verkefni vegna nýframkvæmda og viðhalds á Keflavíkurflugvelli, steypuskáli Norðuráls, Hvammsvirkjun, orkuver í Svartsengi sem er mikið til uppbygging og viðbætur við núverandi starfsemi, verkefni vegna orkuflutnings, hitaveitu og annara veitna, vegasamgöngur, o.m.fl. „Erlendis er áframhald af verkefnum sem tengjast endurnýjanlegri orku og orkuskiptum,“ bendir Sveinn á. „Má þar nefna Gamma sem er nýsköpunarverkefni þar sem unnið er að því að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum með endurbótum á flutningskipi í rekstri.“