Vöntun á heildarsýn í ferðaþjónustu
Fjöldi tækifæra hefur reynst vera í örum vexti ferðaþjónustunnar á Íslandi undanfarin ár, en að sama skapi hafa vaknað upp spurningar um framtíð atvinnugreinarinnar. Þótt þjóð taki ferðamönnum alla jafna fagnandi sem og jákvæðum hagrænum áhrifum sem koma þeirra hefur í för með sér, hafa komið upp álitamál að undanförnu sem setja spurningarmerki við hvert stefnir. Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Iceland Excursions – Gray Line, segir hluta ástæðunnar vera að ferðaþjónustan njóti ekki sömu kjara og önnur stóriðja á Íslandi og það vanti heildræna ferðamálastefnu frá hinu opinbera, en án aukinnar aðkomu ríkisins sé viðbúið að óreiða verði á því hvernig tekið sé á aukningu ferðamanna.
Náttúran er aðal atriðið
Eitt helsta álitamál í ferðaþjónustunni hefur verið gjaldtaka við ferðamannastaði og telur Þórir þær aðferðir ekki til þess fallnar að auka hag ferðaþjónustunnar. „Það skaðar ásýnd þessara ferðamannastaða að setja upp gjaldheimtuskúra hér og þar um landið a og þar fyrir utan er kostnaður við slíka gjaldheimtu gríðarlegur. Það er alveg ljóst að langstærstur hluti ferðamanna kemur hingað til að skoða náttúruna og verður það því alltaf að vera aðal markmiðið. Það þarf vitaskuld að búa þannig um hnútana að hægt sé að skapa arð, en það gerist ekki ef ekki er gætt að náttúruvernd,“ segir Þórir.
Þórir tekur þó fram að eindreginn vilji sé hjá ferðaþjónustufyrirtækjum til að leitað sé lausna við fjármögnun uppbyggingar, framkvæmda og viðhaldi á rekstri ferðamannastaða sem eru ekki sjálfbærir.„Það hefur aldrei verið sagt að það sé óeðlilegt að landeigendur geti notið arðs af eignum sínum. Það þarf einfaldlega að koma þessu í ákveðið form sem sátt er um, þannig að við getum skilað af okkur ánægðum ferðamönnum sem skila, þegar uppi er staðið, gríðarlegum tekjum til þjóðarbúsins og skapa hér mikla atvinnu,“ segir Þórir.
Næstu fjögur árin er áætlað að það þurfi milljarð á ári til að sjá til þess að viðhald og uppbygging ferðamannastaða sé fullnægjandi. Stærsta vandamálið er ástand göngustíga og þarf víða að fara í kostnaðarsamar aðgerðir vegna þessa. Vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs í dag segir Þórir ferðaþjónustufyrirtæki tilbúin til að fjármagna tímabundna lausn á fjármögnunarvandanum. Það þarf þá að vera auðvelt kerfi, gegnsætt og má alls ekki koma á óvart. „Í mínum huga er komugjald sem er greitt þegar ferðamenn koma inn fyrir landamæri Íslands einna besti kosturinn. Gistináttaskatturinn er svo að skila um 220 milljónum, jafnvel þó skatturinn hafi verið brenglaður í meðförum Alþingis,“ segir Þórir.
Skortur á skipulagi
Vandinn er þó ekki alfarið peningalegs eðlis að sögn Þóris, en uppbygging ferðamannastaða hefur þannig gjarnan strandað á skorti á deiliskipulagi. „Til að hægt sé að fara út í þessa vinnu á kerfisbundinn hátt þarf að vera deiliskipulag fyrir hendi, annars eru þetta eilífar skammtímalausnir. Frá því að þessi umræða fór fyrst af stað hefur deiliskipulag ekki verið til staðar á fjölförnum áfangastöðum og er það til dæmis aðeins nú fyrst að klárast fyrir Gullfoss- og Geysissvæðið. En á móti þá vara ég við því að sú skipulagsvinna verði til þess að þessir viðkomustaðir verði ekki í líkingu við einhverskonar skemmtigarða, náttúran á, sem áður segir, að vera í aðalhlutverki,“ segir Þórir.
Minnka mætti álagið á vinsælustu ferðamannastaðina og mæta aukningu ferðamanna með því að dreifa þeim á fleiri viðkomustaði að sögn Þóris. „Við getum auðvitað ekki stýrt ferðamönnum og sagt þeim að fara annað án þess að rökstyðja það með faglegum hætti. Ferðamenn eru almennt vel upplýstir og velja sér áfangastaði útfrá þeim upplýsingum sem í boði eru og þess vegna þarf markvisst að kynna þeim nýja staði. En þá er aftur komið að fjármagni, því það er ekki hægt að ætlast til þess að einstök ferðaþjónustufyrirtæki fjármagni uppbyggingu og kynningu á nýjum viðkomustað og taki á sig gríðarlegan kostnað sem aðrir nytu svo góðs af. Slík kynning ætti, að stærstum hluta, að vera á ábyrgð hins opinbera og t.d. markaðsstofa landshlutanna sem ætti að vera tryggt fjármagn til að kynna nýja áfangastaði,“ segir Þórir.
Skortur á heildarsýn stjórnvalda
Þórir segir það skýrt í sínum huga að það fjármagn sem vantar ætti að koma úr ríkissjóði og segir hann að það vanti heildræna ferðamálastefnu ríkisins. „Ríkið hefur gríðarlegar skatttekjur af ferðamönnum, 30-40 milljarða á ári, og má vel segja að ferðaþjónustan sé stóriðja á Íslandi. Þó fær ferðaþjónustan engar ívilnanir á við aðra stóriðjuaðila sem semja við ríkisvald um land, orku og annað og gera fjárfestingarsamninga upp á fleiri milljarða. Í ofanálag heyrir maður svo t.d. þingmenn tala um að ferðaþjónustan sé niðurgreidd vegna þess að það sé ekki innheimtur virðisaukaskattur af tiltekinni þjónustu, en við skulum ekki gleyma því að ferðaþjónustan er fyrst og fremst útflutningsgrein og fá útflutningsgreinar allan virðisaukaskatt endurgreiddan, t.d. áliðnaðurinn og stór hluti sjávarútvegsins. Þetta er kerfi sem sett hefur verið á með lögum og allt tal um annað þykir mér óábyrgt.
Ferðamenn koma ekki hingað af ástæðulausu, en það er búið að leggja mikla vinnu í að laða ferðamenn hingað. Við njótum auðvitað þeirrar gæfu að hafa hér mikla náttúrufegurð, en hún ein og sér laðar ekki að ferðamenn. Það er þrotlaus vinna margra einstaklinga og fyrirtækja sem hefur gert Ísland að aðlaðandi áfangastað og sýnt fram á samkeppnishæfi þess. Ef svo á að skattleggja allt í topp er hætt við að öll sú vinna glatist,“ segir Þórir.
Viðskiptavinurinn hefur valið
Verðlagning á ferðaþjónustu hefur verið mikið í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu og óttast einhverjir að hækkandi verð hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna og ímynd landsins. Þórir segir þá umræðu í undarlegum farvegi, enda sé mikið um það rætt að ferðaþjónustan sé að verðleggja sig of lágt og svo þegar finnast dæmi um hátt verð á einstökum vörum eða þjónustu og þá sé það orðið of hátt. „Fyrir mér er þetta ósköp einfalt, en við eigum auðvitað að selja þjónustu okkar á því verði sem viðskiptavinir eru tilbúnir að borga fyrir. Það gerum við á ákveðnum forsendum, sem eru samkeppnisforsendur, sem sjá til þess að við verðleggjum okkur ekki út af markaðnum og svo að það séu til staðar viðskiptavinir sem eru tilbúnir til að borga. Viðskiptavinurinn hefur alltaf val um að sækja þjónustu sína annað“, segir Þórir.
Aukning ferðamanna á Íslandi hefur óhjákvæmilega áhrif á þjóðfélagið og segir Þórir mikilvægt að gætt sé að því að horft sé á þær breytingar með lausnarmiðuðum hætti. „Í fyrsta lagi hafa kannanir sýnt að samspil þjóðar við ferðamenn hefur verið með besta móti. Það hefur hins vegar borið á því að fjölmiðlar máli svartari mynd af stöðunni og sýni þar frekar vandamálin sem geta komið upp frekar en lausnirnar. Árekstrar af einhverju tagi eru óhjákvæmilegir og þurfum við frekar að reyna að sjá þá fyrir og vinna úr þeim á lausnarmiðaðan hátt. Hingað til hefur oft verið beðið fram á síðustu stundu með að taka á slíkum vandamálum og er ábyrgð hins opinbera þar talsverð. Það er fyrst nú verið að kortleggja þolmörk ferðamannastaða, sem við fögnum. Ferðaþjónustufyrirtæki verða að geta haft eitthvað í höndunum til að byggja ákvarðanir sínar á, annars verður þetta óttalegur hrærigrautur. Við megum ekki gleyma því að ferðamennirnir halda uppi lífsgæðunum í þessu landi og drífa upp hagvöxtinn að verulegu leyti. Þetta er stærsta gjaldeyristekjuskapandi atvinnugrein þjóðarinnar og við verðum því að horfa á stöðuna út frá þessum lausnum,“ segir Þórir.
-VAG