Miðbær Reykjavíkur um 1904-1905
„Þar næst er tvíloftað hús, sem upprunalega var byggt af Ahrens mylnumanni, og var þá þegar mjög snoturt; það hús keypti Helgi biskup Thordersen og bjó þar, eftir að hann flutti frá Laugarnesi, og þar andaðis hann; en eftir hans dag var húsið leigt út og bjuggu þar ýmsir: Dr. Jón Hjaltalín og eftir hann Benedikt Gröndal nokkur ár; seinast keypti Bjarni á Esjubergi húsið og bjó þar niðri ásamt tengdasyni sínum, Þorláki Ó. Johnson; þar andaðist Bjarni, en Þorlákur lét byggja við báða hússendana, svo húsið er nú helmingi lengra en það var upprunalega. Það er mjög fagurt hús og stór herbergi.
Þar næst er fremur lítið hús, einloftað, byggt af Jóni Þorkelssyni rektor, sem þá var kennari við latínuskólann; en síðar keypti Helgi Hálfdanarson húsið og bjó þar, þangað til hann flutti upp í húsið, sem átt hafði Bergur Thorberg; síðan keypti Eggert sýslumaður Briem húsið og andaðist þar; er það síðan eign þeirra ættmanna. – Þar næst er hús dr. Jónassens, landlæknis; en hann lét byggja það um 1874, einloftað með kvistum beggja megin; það er mjög snoturt hús og höfðinglegt að fyrirkomulagi; dyrnar eru á suðurgaflinum, og hefur það tíðkast mjög síðan að hafa dyrnar á gaflinum, því það þykir rúmbetra. Þetta hús er á horninu á þeirri götu, sem liggur frá skólabrúnni.“
–Úr riti Benedikts Gröndal: Reykjavík um aldamótin 1900, þar sem hann fjallar um Lækjargötu 4, 6 og 8.
Ljósmynd: Magnús Ólafsson