Hallormsstaður Austurland 

Austurland Hallormsstaður
Hallormsstaðaskógur

Tæpa 30 km frá Egilsstöðum, að Hallormsstað blasir við stærsti skógur okkar Íslendinga og jafnframt fyrsti þjóðskógur okkar, en árið 1905 var Hallormsstaðaskógur friðaður með lögum. Tókum við Íslendingar þar fyrsta skref okkar í náttúruvernd. Nú rúmri öld eftir friðun skógarins skapa fjölbreyttur gróður og trjátegundir þéttan og fallegan skógarkjarna, falleg rjóður og læki sem unun er á að líta árið um kring. Síðla sumars og fram á haust má tína þar bláber, hrútaber og lerkisveppi og njóta þess að draga andann djúpt og finna orkuna streyma um sig.

Það var um fagurt sumarkvöld í byrjun aldarinnar sem ungur maður sté fæti sínum á þennan ævintýrastað og ákvað að þarna í trjálundi skyldi hann dvelja í tjaldi sumarlangt. Sumrin urðu fleiri en eitt og fleiri en tvö. Ungi maðurinn óx úr grasi en hélt þó þeim vana sínum að heimsækja skóginn sinn. Bjartar næturnar fönguðu hjarta hans og á þessum stundum orti hann sín fegurstu ljóð, þar sem tilfinningarnar fengu óbeislaðar að njóta sín. Þessi ungi maður bar nafnið Þorsteinn Valdimarsson, sem í minningargrein var kallaður skáld gróandans og gleðinnar, eitt besta ljóðskáld okkar Íslendinga og einn af frumkvöðlum íslenskrar limru. Þorsteinn átti ekki langt að sækja sköpunargáfuna, en systkin hans Gunnar og Guðrún, auk móður þeirra Guðfinnu, voru listhneigð, ortu ljóð og smásögur. Guðfinna birti ljóð sín undir nafninu Erla skáldkona og eftir hana liggja falleg verk, bæði frásöguhættir, ljóð og ljóðabækur, alls sex talsins.

Ljóð Þorsteins bera mörg hver vitni um ást hans á náttúrunni en þó hefur eitt þeirra verið helgað baráttu herstöðvaandstæðinga en það er ljóðið „Þú veist í hjarta þér“ sem hann samdi árið 1976.


Þú veist í hjarta þér, kvað vindurinn
að vegur drottnarans er ekki þinn.
Hann er þar sem gróanda þytur fer
og menn þerra svitann af enni sér
og tár af kinn og tár af kinn.
Þú veist í hjarta þér kvað vindurinn
að varnarblekking er dauði þinn.
Engin vopnaþjóð er að vísu frjáls
og að vanda sker hún sig fyrr á háls
en óvin sinn, en óvin sinn.
Þú veist í hjarta þér, kvað vindurinn,
að vald og ríki´ er ekki manngrúinn.
Hvað þarf stóra þjóð til að segja satt
til að sólarljóð hennar ómi glatt
í himininn, í himininn.

Þennan fallega texta tók hljómsveitin Hjálmar upp á arma sína á plötunni Ferðasót sem gefin var út árið 2007 og hefur lagið hlotið mikið lof í útsetningu þeirra Hjálma. Færri vita þó að söngvari og textasmiður  hljómsveitarinnar, Þorsteinn Einarsson, ólst upp á þessum sömu slóðum enda þekktur fyrir fallega og oft angurværa texta þess, sem viðkvæmni náttúrunnar hefur alið frá unga aldri.

Þorsteinn Valdimarsson liggur nú í  hinstu hvílu á Hallormsstað og hefur verið reistur minnisvarði honum til heiðurs í trjálundinum fagra. -SP