Óspakseyri er landnámsjörð Þorbjarnar bitru en á söguöld bjó þar ójafnaðarmaðurinn Óspakur sem jörðin dregur nafn af. Á Óspakseyri hefur staðið kirkja frá því snemma á öldum. Kirkjan sem stendur þar í dag var reist árið 1939. Löggilt höfn er á eyrinni en engin mannvirki hafa þó verið reist þar henni tengdri. Þingstaður hreppsins var á Eyri og ungmennafélag Bitrunga byggði þar lítið samkomuhús árið 1927.
Vorgott er á Eyrarhlíð og fjárbúskapur var farsæll á Eyri. Til hlunninda telst laxveiði í Krossá, silungsveiði í Tunguá, smávegis reki og lítill varphólmi sem er út við Krossárósinn.Verslun var rekin með hléum á Eyri á fyrri hluta 20. aldarinnar, þar til Kaupfélag Bitrufjarðar var stofnað 1942 og tók við öllum umsvifum og rak meðal annars sláturhús þar. Verslun á Óspakseyri hófst með því að árið 1912 keypti maður að nafni Metúsalem Jóhannsson eyrina af Marinó Hafstein sýslumanni sem hafði búið þar frá því um aldamót. Engin verslun hafði þá verið á Óspakseyri að öðru leyti en því að afgreiddar voru vörur eftir pöntun frá gamla Dalafélaginu sem náði yfir Dali og nokkurn hluta Strandasýslu.
Árið 1914 keypti Sigurgeir Ásgeirsson verslunina og rak hana allt til ársloka 1936. Kaupfélag Hrútfirðinga lét byggja lítið verslunarhús vorið 1929 og hóf verslun á eyrinni. Þegar Sigurgeir hætti tók útibú Kaupfélagsins verslun hans á leigu. Um svipað leyti kom í ljós að menn höfðu áhuga á því að stofna sjálfstætt kaupfélag fyrir verslunarmenn og var það farmkvæmt árið 1942. Í dag er á Óspakseyri minnsta kaupfélag á landinu og er yfirleitt opið einu sinni í viku.
Óspakseyri hefur orðið til við framhlaup úr fjallinu og þar hefur einnig fallið skriða á 20. öldinni. Veturinn 1943 nokkru fyrir jól, féll stór skriða úr Eyrarhlíð og gróf fjárhús og hlöðu en fjárskaði var ekki. Smalinn var kominn með féð heim á hlað, en þegar fénaðurinn heyrði í skriðunni fældist hann og tók sprettinn norður á túnið og bjargaðist þannig.
Skriðan var um 150-200 metra breið og munu upptök hennar hafa verið um miðja hlíðina. Nokkur hluti skriðunnar lenti í víkinni sunnan við eyrina og orsakaði mikla flóðöldu sem skall á húsum og sópaði öllum skúrum í burt nema þeim sem stóðu norðan megin við verslunarhúsið. Einn þessara skúra var notaður til gærusöltunar og var fullur af gærum. Þær flutu í burtu og glötuðust eða ónýttust meira eða minna. Vörur og annað sem geymt var í skúrunum eyðilagðist, uppskipunarbátur brotnaði, heyið skemmdist og einnig nokkrar tunnur af fóðursíld. Tjón bóndans á Óspakseyri og Kaupfélagsins var því mikið.
Þeim sem þekkja til á Eyri þykir ótrúlegt að önnur eins skriða hafi getað fallið úr Eyrarhlíðinni og margir telja að staðhættir bendi alls ekki til að slíkt geti átt sér stað