Gróska á Grandanum að fornu og nýju er yfirskrift kvöldgöngu sem Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur mun leiða um Grandann fimmtudagskvöldið 19. júlí.
Þátttakendur eiga í vændum áhugaverða upplifun þar sem lykt og bragð verður í öndvegi. Ferðast verður fram og aftur um síðustu öld með viðkomu í almenningsböðum sem japönskum kaffihúsum, mathöllum og netageymslum. Þá verður rætt um frumgerð skyrsins og rýnt í fyrstu frönsku kartöflurnar á Íslandi.
Lagt verður af stað frá Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, kl. 20. Gangan tekur um það bil eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Leiðsögnin fer fram á íslensku.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.