MELCKMEYT 1659 – fornleifarannsókn neðansjávar

Hádegiserindi á ensku

Í Sjóminjasafninu fimmtudaginn 11. október kl. 12:10
Ókeypis aðgangur

Fornleifafræðingar segja frá flaki Melckmeyt við Flatey

Fornleifafræðingarnir Kevin Martin og John McCarthy verða með hádegiserindi á ensku í Sjóminjasafninu í Reykjavík fimmtudaginn 11. október kl. 12:10. Erindið ber yfirskriftina Melckmeyt 1659 – Fornleifarannsókn neðansjávar.

Kevin Martin er doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík og er rannsóknin á flaki hollenska kaupskipsins Melckmeyt, sem sökk árið 1659 við Flatey á Breiðafirði, hluti af doktorsverkefni hans. Hann mun fjalla um rannsóknir sínar, 2016 og 2018.

John McCarthy er doktorsnemi við Flinders University í Ástralíu og sérfræðingur í þrívíðri hönnun og stafrænni endurgerð 17. aldar skipsflaka. Hann hannaði inntak í sýndarveruleikagleraugu í tengslum við sýningu sem Sjóminjasafnið opnaði í júní 2018 um uppgröftinn á Melckmeyt. Hann mun fjalla sérstaklega um þá vinnu. Gestum er boðið að skoða sýninguna og prófa gleraugun að erindi loknu.

Á sýningunni fá gestir innsýn í rannsóknaraðferðir fornleifafræðinnar og fjallað er um valda þætti úr sögu skipsins, áhafnar og verslunar á 17. öld. Einnig getur að líta nokkra þeirra gripa sem fundust við rannsóknina.

Flakið af Melckmeyt er sérstakt fyrir þær sakir að það er elsta skipsflak sem vitað er um við Íslandsstrendur og eina skipið sem tengist einokunarverslun Dana. Rannsókn á flakinu veitir einstaka innsýn og eykur þekkingu okkar á tímabilinu sem og neðansjávarfornleifafræði.

Aðgangur á erindið er ókeypis.

///