Eyja í Ölfusi, sýning eftir Valdimar Thorlacius í Ljósmyndasafni Reykjavíkur
Eyja í Ölfusi nefnist sýning ljósmyndarans Valdimars Thorlacius sem opnuð verður í
Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 21. maí n.k. Titillinn vísar til bæjar á Suðurlandi
sem er á virku hverasvæði og við þekkjum undir nafninu Hveragerði. Bærinn er einnig
heimabær ljósmyndarans og hefur því sérstaka þýðingu fyrir hann sem viðfangsefni.
Í bænum miðjum vellur heitt vatn upp úr jörðinni, ýmist í fyrirsjánlegum rólegheitum eða með
óvæntum hávaða og látum. Svæðið er áhugavert og einkennist af litskrúðugum
bergmyndunum, brennisteinsútfellingum, gufustrókum og dularfullum holum.
Hveragerði varð til og hefur lifað vegna jarðhitans. Nokkrir frumherjar sáu tækifærin og
höfðu hugvit og elju til að nýta þau. Í dag hugsa íbúarnir kannski ekki mikið um varmann
dagsdaglega, en hann er hluti af lífinu. Hús þeirra eru byggð við eða ofan á sprungum og
hverum. Þau hafa laskast í jarðskjálftum og hverir hafa jafnvel brotist upp í gegnum
jarðveginn og komið upp inni í þeim.
Í þessu verki skoðar Valdimar það Hveragerði og manneskjurnar sem er að finna innan um
hverina, gufuna og gróðurhúsin.
Valdimar Thorlacius útskrifaðist frá Ljósmyndaskólanum árið 2014. Sama ár hlaut hann styrk
úr Minningarsjóði Magnúsar Ólafssonar og gaf út ljósmyndabók. Árið 2015 tók hann þátt í
samsýningunni Warsaw Festival of Art Photography, Galeria Obok ZPAF í Varsjá, Póllandi
ásamt því að vera með einkasýningu Þjóðminjasafn Íslands.