Reykjavík er skemmtileg borg, skrýtin já, ung já, með byggingum sem eru svo fjölbreyttar, öðruvísi en binda samt borgina saman og mynda sérstæða heild. Höfuðborg Íslands, Reykjavík. Ljósmyndari Icelandic Times / Land og Saga, fór í bæinn sem ferðamaður, myndaði og upplifði. Í Bankastræti innan um fjölda manns hitti hann íslenskan myndasmið búsettan í Kaliforníu, sem hafði ekki komið heim í á fimmta ár. Dáðist sá að breytingunum, þekkti varla borgina aftur. Fannst hún hafa tekið miklum stakkaskiptum á jákvæðan hátt. Spjallandi í Bankastrætinu, spurði hann. ,,Erum við ekki einu Íslendingarnir í bænum. Þarf ekki að setja þak á ferðamenn „? Ekki viss, en veit að tveir af hverjum þremur íbúum lýðveldisins búa á höfuðborgarsvæðinu. En engin þeirra var sjánlegur. Árið 1900 bjuggu 5.802 í Reykjavík, fyrir hundrað árum voru þeir 19.194, fyrir fimmtíu árum voru íbúar á höfuðborgarsvæðinu 113.764, nú 232.580. Og ferðamennirnir hingað komnir í ár, komnir á aðra milljón. Hér eru svipmyndir frá höfuðborginni í dag. Welcome to Reykjavík.
Reykjavík: 04/07/2022 : RX1R II : 2.0/35mm Z
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson