Líklega um 1942-1943, hitaveitustokkur steyptur í útjaðri Reykjavíkur. Verkamenn við vinnu. Lengst til vinstri sést glitta í Korpúlfsstaði. Photographer: Helgi SigurðssonSteyptir stokkar sem víða má sjá i borgarlandinu gegna stóru hlutverki í lífi Reykvíkinga. Í þeim er pípa sem flytur heitt vatn til borgarinnar en með því hita þeir upp híbýli sín. Ennfremur eru þeir mikilvæg gönguleið fyrir íbúana í hverfunum sem þeir liggja um, sérstaklega á vetrum því að ekki frýs á þeim. Fyrir tíma hitaveitunnar voru hús í Reykjavík kynt með kolum eins og víðast hvar í Evrópu. Vegna hins kalda veðurfars kyntu bæjarbúar hús sín vel og lá oft þykkur kolamökkur yfir Reykjavík. Kolakyndingin var því bæði dýr og mengandi. Hitaveita Reykjavíkur tók til starfa árið 1930 og sótti fyrst vatn í Þvottalaugarnar í Laugardal. Það reyndist vel en dugði aðeins fyrir lítinn hluta bæjarins. Aðrir bæjarbúar vildu þá ólmir tengjast hinni nýju veitu og til að anna eftirspurn var vatn sótt út fyrir bæinn, að Reykjum í Mosfellssveit. Reykjaveitan var tekin í gagnið árið 1943.
Einhver lengsta hitaveituæð í veröldinni á þeim tíma var lögð frá Reykjum, 17 kílómetra leið um holt og móa, yfir ár og læki, allt vestur í Öskjuhlíð. Þar voru reistir tankar og úr þeim var vatninu veitt um bæinn. Hitaveiturörin voru sett í stokk sem steyptur hafði verið á staðnum. Þau voru einangruð með torfi sem bundið var utan um rörin. Í stokkana var líka sóttur vikur úr Krýsuvík til einangrunar. Hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Ávinningurinn af henni hefur verið margvíslegur. Hún bætti heilsufar bæjarbúa, kolarykið hvarf og kostnaður við heimilishald og atvinnurekstur minnkaði. Sömuleiðis jókst hreinlæti því að þvottar og böð urðu ódýrari og aðgengilegri.
Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is