Nýr útsýnispallur við Ófærufoss

10628436_961743750509423_8862383596455720133_nofaerufoss1Tekinn hefur verið í notkun nýr útsýnispallur við Ófærufoss í Eldgjá. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnaði verkið til helminga við þjóðgarðinn. Megintilgangur útsýnispallsins er að vernda viðkvæmt umhverfi Ófærufoss fyrir ágangi, bæta öryggi gesta og jafnframt að gefa þeim möguleika á aukinni nánd við fossinn.

Pallurinn var hannaður inn í fosshvamminn af Birgi Teitssyni, Arkís arkitektum, í samvinnu við Landform landslagsarkitekta og verkfræðistofuna Eflu. Valmundur Guðmundsson, Eystra-Hrauni ehf. í Landbroti, sá um smíði pallsins ásamt Vélsmiðjunni ehf í Hafnarfirði en Vélaleiga Ingólfs ehf boraði fyrir og steypti undirstöður.

10658686_961743773842754_1979988641358530706_oÞar sem Eldgjá er ófær ökutækjum þurfti þjóðgarðurinn að fá aðstoð þyrlna við efnisflutninga inn að Ófærufossi. Að því verki komu Landhelgisgæslan og Vesturflug ehf. Meðfylgjandi myndir sýna framkvæmdina og pallinn í endanlegri gerð.