Ein fallegasta götumynd í Reykjavík er Ljósvallagatan í vesturbænum. Randbyggð sem byrjað var að byggja árið 1926 og að mestu lokið um 1930. En Randbyggð var á þessum tíma ráðandi byggingarform í Reykjavík, eftir að timburhús voru bönnuð í kjölfar brunans mikla við Austurvöll / Austurstræti árið 1915. Helstu hugmyndafræðingar þessa byggingarforms voru Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins og Guðmundur Hannesson læknir. En þeir sátu báðir í skipulagsnefnd ríkisins. Fyrsta skipulag Reykjavíkur frá árinu 1927 byggði á þessum hugmyndum. Gott dæmi eru verkamannabústaðirnir við Hringbraut, og vesturhlið Ljósvallagötu, en Hólavallakirkjugarður, starfræktur frá 1838 til 1932 stendur við eystri hluta götunnar. En tími randbyggðar í Reykjavík er stuttur, tuttugu ár. Reykvíkingar, já íslendingar vilja líklega stærri lóðir, stærri hús, en nágranaþjóðirnar, enda teygir höfuðborgin nú úr sér nær tuttugu kílómetra í austur frá Sólvallagötunni vestur í bæ.
Reykjavík 16/08/2024 : A7R IV, RX1R II – 2.0/35mm Z, FE 1.8/20mm G
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson