Ein vinsælasta mynd ársins í íslenskum kvikmyndahúsum er Snerting eftir Baltasar Kormák, gerð eftir vinsælustu bók ársins 2020 eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Blaðamaður hitti Baltasar í kaffi í hinum tilkomumiklu húsakynnum Rvk Studios í Gufunesi og ræddi við hann myndina, aðdráttarafl sögunnar og hvernig meginstef hennar endurspeglast í okkur flestum á einn eða annan hátt – ekki síst hans sjálfs.
Baltasar Kormákur er sá leikstjóri okkar Íslendinga sem hvað mestum frama hefur náð á erlendri grund og myndir hans hafa skartað sumum af stærstu stjörnum samtímans í aðalhlutverkum. Undir hans stjórn hafa Jake Gyllenhaal og Josh Brolin lagt á tind Everest, Idrid Elba fengist við blóðþyrst ljón og Denzel Washington mundað byssur sínar, svo aðeins sé gripið niður í þann sæg heimsfrægra leikara sem hann hefur starfað með undanfarna tvo áratugi eða svo. Nýjasta mynd hans, Snerting, sem byggir á samnefndri metsölubók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, hefur fengið frábærar viðtökur, hér heima sem erlendis, og ólíkt þeim myndum sem minnst er á hér að framan – Everest, Beast og Two Guns – þá er stígandinn hægur, knúinn miklum tilfinningum sem eiga sér djúpar rætur í sannsögulegum atburðum.
„Dóttir mín gaf mér bókina og strax og ég fór að lesa hana – ég verið kannski á blaðsíðu 100 – þá veit ég að þetta er eitthvað sem ég er að fara detta inn í. Sagan hans Ólafs Jóhanns hefur þann eiginleika að hún byrjar laust, ef við getum orðað það þannig, en svo herðir hún bara takið hægt og rólega, verður þéttari og þéttari, og þegar upp er staðið hefur eitthvað gerst innra með manni sem maður sá ekki fyrir,“ útskýrir Baltasar. „Bæði tilfinningalega og frásagnarlega þá þéttist hún mjög mikið þegar líður á. Það fannst mér áhugaverður eiginleiki sem hreif mig rosalega.“
Gott samstarf við Ólaf Jóhann
Baltasar beið ekki boðanna heldur setti sig þegar í stað í samband við Ólaf Jóhann Ólafsson, höfund bókarinnar. Í framhaldinu vörðu þeir tveir um ári í að skrifa handritið að kvikmyndinni. Í þann mund sem þetta er ritað berast fregnir af því að myndin sé tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024, að því er segir í tilkynningu frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Á þeim tímapunkti hafa um 42 þúsund manns séð myndina hér heima og við blasir að Snerting verður aðsóknarmesta íslenska myndin á árinu og meðal vinsælustu mynda þegar árið er úti. Útfrá helstu viðmiðum má því fullyrða að vel hafi tekist til.
„Það má segja að við Ólafur Jóhann séum báðir mjög virkir menn, og við unnum bara stöðugt í þessu verkefni þangað til það var tilbúið,“ segir Baltasar um handritsgerðina. „Samstarfið var virkilega ánægjulegt, ekki síst þegar haft er í huga að almennt er talað um að maður eigi ekki að vinna með bókarhöfundi að gerð handrits. Það hefur ekki alltaf gengið vel þegar ég hef reynt það,“ bætir hann við með glettnisglampa í augum. „En við Ólafur fórum í þetta á réttum forsendum. Það er bara eitthvað sem gerist og þetta varð alveg óskaplega auðvelt samstarf. Við köstuðum hugmyndum stöðugt á milli okkar og ef ég lagði til eitthvað sem var frávik frá bókinni, eins og gerist þegar færsla yfir á hvíta tjaldið á sér stað, þá greip hann það og vann með mér. Þetta hjálpaði tvímælalaust við að tryggja að tóninn í bókinni væri alltaf til staðar í myndinni. Hans höfundareinkenni eru þarna en samstarfið varð aldrei þannig að hann væri ekki tilbúinn að leyfa mér að aðlaga söguna að kvikmyndarforminu. Fyrir bragðið held ég að það séu meiri breytingar á sögunni eins og hún kemur fyrir í myndinni heldur en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Kjarninn í sögunni er það sem skiptir mestu máli, hann er trúr bókinni og hann er til staðar.“
Stjörnuleikur tveggja kynslóða
Mikið hefur þegar verið rætt og ritað um frammistöðu Egils Ólafssonar í hlutverki Kristófers í samtímanum og óhætt að segja að hann vinni leiksigur. Þegar blaðamaður sá myndina vakti leikarinn sem túlkar Kristófer á árum áður ekki minni athygli hans, en þar er á ferðinni sonur Baltasars, Pálmi Kormákur, í sínu fyrsta stóra hlutverki. Hvað sem líður reynslu, sjálfstrausti og hæfileikum Baltasars sem leikstjóri, var hann ekkert smeykur við að kasta syninum rakleiðis í hinu djúpu laug burðarhlutverks í kvikmynd í fullri lengd? Pabbinn brosir út í annað við tilhugsunina. „Það var upphaflega ekki mín hugmynd að Pálmi léki þetta hlutverk – Selma Björnsdóttir kom með hugmyndina. Hún benti mér á strákana mína tvo, Storm og Pálma, fyrir þetta hlutverk og mín fyrstu viðbrögð voru þau að annar þeirra væri ekki rétta týpan í hlutverkið þó hann sé frábær leikari, og hinn væri það reyndar en sá hefði bara engan áhuga á að leika því hugur hans er í myndlist, og óvíst hvort hann yfirleitt hefði þetta í sér þrátt fyrir einstaka smáhlutverk þegar hann var yngri. En ég bað Selmu bara að setja sig í samband við strákana og boða þá í prufur og leyfa svo bara prósessnum að eiga sér stað, frekar en að ég væri að þvælast þar fyrir.“
Það kom á daginn að Stormur var ekki rétti karakterinn fyrir hinn viðkvæma og tilfinninganæma Kristófer, og Baltasar var ekki einu sinni viss um að Pálmi myndi mæta í prufurnar. Sjálfur dró Pálmi lappirnar fyrst um sinn en afréð að endingu að taka slaginn, ögra sjálfur sér svolítið og mæta í prufurnar. Það reyndist mikið lán. „Ég kíki á prufurnar og eins og við manninn mælt, strákurinn steinliggur í þessu, mér til jafnmikillar undrunar og til ánægju. Allir sem sjá prufurnar í framhaldinu eru sama sinnis og segja að hann sé sá rétti í þetta. Sama gerist með fólkið hjá Focus Features [framleiðslufyrirtæki myndarinnar] og það er þá fyrst sem ég fer að hugsa hvað nú? Ég vissi að það kom enginn annar til greina í hlutverkið en ég vissi líka að þetta yrði erfitt fyrir mig, því hvað ef þetta gengi nú ekki upp á endanum? Það er eitt er að gera mistök við gerð kvikmyndar en annað að gera mistök með líf barnsins þíns. Það hefði geta valdið honum langvarandi erfiðleikum hefði hlutverkið ekki tekist nægilega vel upp hjá honum og ef ég á að segja alveg eins og er þá var þetta mér ekki auðvelt. En við mættumst í þessu eins og tveir fullorðnir einstaklingar og það er ekkert skemmtilegra en að kynnast börnunum þínum í vinnu. Það er alveg ótrúlega gefandi, ekki síst af því hann stendur sig svo vel, strákurinn.“
Liðin tíð sem ýfir upp göm
ul sár
Í meðförum Pálma kynnumst við söguhetjunni Kristófer sem námsmanni á Lundúnarárum sínum, seint á 7. áratugnum, og hvernig það verkast að hann hefur störf á japönskum veitingastað, verður ástfanginn og lífir brosir við honum, áður en örlögin grípa í taumana þegar atburðir úr fortíðinni minna á sig. Án þess að fara ítarlega í saumana á framvindu sögunnar þá kemur þar fyrir hugtak úr japanskri tungu sem nefnist hibakusha og reynist mikill örlagavaldur í ævi Kristófers. Hugtakið verður til upp úr þeim atburðum þegar kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki undir lok Seinni heimsstyrjaldar og lýsir þeim sem urðu fyrir áhrifum af völdum sprengjanna; orðið hi merkir sá sem þjáist, baku þýðir sprenging og sha er persóna – persóna sem þjáist vegna sprengingar.
Hér er ekki átt við þau sem fórust í hamförunum heldur fólkið sem lifði af, og lifði í skugga langvarandi áhrifa geislunar og annarra lengri tíma áhrifa. Í kjölfar sprengjuárásanna fór nefnilega að bera á stimplun þeirra sem höfðu lifað af og fordómum í garð þeirra og afkomenda sömuleiðis. Talið var að blóð eftirlifenda væri mengað af geislun og almennt ekki búist við að hibakusha gæti getið af sér heilbrigð börn. Slíka einstaklinga vildu fæstir fá í sínar fjölskyldur. Þannig verður til annar þögull og grimmur harmleikur, ofan á hörmungarnar sjálfar sem sprengjurnar voru.
„Þessi Hiroshima-saga er svo fáránlega vel sett inn í framvinduna hjá Ólafi, hvernig fiðrildaáhrif frá
löngum liðnum voðaverkum hafa svo afdrifarík áhrif í samtímanum. Þetta gefur sögunni miklu meiri stærð og dýpri tón,“ segir Baltasar og það er auðheyrt að þessi hlið sögu Kristófers hreyfir við honum. „Þetta er að koma meira og meira upp á yfirborðið í seinni tíð og það var grein í Guardian um þetta vegna heimildarmyndarinnar Atomic People sem fjallar um þetta fólk – hibakusha.“
Baltasar þagnar um stund og er hugsi. Svo tekur hann til máls á ný.
„Ég ætla að leyfa mér að segja þér svolítið. Svolítið magnað. Ég fékk bréf fyrir svona viku síðan frá leikara sem leikur í myndinni sem segir mér þar að hann sé afkomandi hibakusha. Það hafi breytt lífi hans mikið að hafa tekið þátt í þessari mynd og hann biður mig afsökunar á að hafa ekki þorað segja mér þetta þegar við vorum að gera myndina. Þetta er það djúpt í japanskri þjóðarvitund að þó hann sé bara afkomandi hibakusha þá þorir hann ekki að hafa orð á þessu því þar af leiðandi gæti hann hugsanlega borið í sér einhvern genetískan galla. Og þetta er bara fullorðinn maður, japanskur leikari sem býr í Þýskalandi, og hann treystir sér ekki til að segja frá þessu!“
Við sitjum þöglir og hugleiðum þetta um stund. Svona þrúgandi er þá stimplunin og fordómarnir gagnvart þeim sem lifðu bomburnar af enn þann dag í dag – næstum 80 árum seinna.
„En mér þótti ótrúlega vænt um að fá þetta bréf, þar sem leikarinn kemur á framfæri einlægu þakklæti og af því Snerting fjallar um þetta viðkvæma málefni sem hefur legið svo þungt á hópi Japana – sem unnu ekkert til saka annað en að lifa af stríðsglæpi – þá langar hann til að hjálpa til við að vekja meiri athygli á myndinni, ef hann getur, í Japan og víðar.“
Alveg eins og foreldrar Baltasars hittust …
Þöggunartilburðir og jaðarsetning sem umlykur þá er töldust til hibakusha er vitaskuld stef sem við Íslendingar þekkjum mætavel gegnum tíðina. Fordómarnir gagnvart íslenskum stúlkum sem áttu vingott við hermenn setuliðsins hér á landi í Seinna stríði lifðu áratugum eftir að stríðinu lauk og hermenn allir á burt. Ekki má gleyma því að hér sem annars staðar veigraði fólk sér lengi vel við að vera í sama herbergi og HIV-jákvæðir einstaklingar. Það er kannski ástæða þess að fólk hér á landi tengir svo vel við söguna – ásamt þeirri staðreynd að öll erum við á einhvern persónulegan hátt í leit að glötuðum tíma?
„Ég held að þetta sé alveg rétt, og þetta er mjög sam-mannlegt efni,“ segir Baltasar. „Hér er kannski á ferðinni stærri og víðfeðmari saga en flestir eiga í þessum efnum. Og þó…“ Baltasar brosir við einhverri tilhugsun og tekur svo aftur til máls. „Foreldrar mínir, þau hittust reyndar alveg eins og Kristófer og Miko. Á Mokka kaffi. Bara nákvæmlega eins. Pabbi, Spánverji sem bjó í Noregi, var bara á leið hér í gegn áleiðis í síldarvinnu á Siglufirði til að vinna sér inn pening, og ætlaði að kaupa sér olíu og striga í bænum, og hann vissi að lókal listamenn hittust á Mokka. Svo þangað lagði hann leið sína. Mamma var nýkomin í bæinn úr sveitinni og var að vinna á Mokka. Pabbi sér hana, stendur upp og labbar til hennar og spyr hana að nafni og hefur ekki yfirgefið landið síðan. Þessar sögur eru allstaðar og ég áttaði mig ekki einu sinni á þessari sögu foreldra minna fyrr en eftir að ég var búinn að gera myndina.“
Tilbúinn í næsta verkefni – með Hollywood stórstjörnu
Aðspurður hvort hann þurfi aðeins að safna kröftum í kjölfar Snertingar – sem var að sögn eitt flóknasta verkefnið sem hann hefur tekist á hendur, með tökum í tveimur heimsálfum, í þremur löndum og á þremur tungumálum – segist Baltasar að því sé fjarri. Þvert á móti sé hann fullur orku og vinna í þann mund að hefjast við næstu stórmynd. Það er spennumyndin Apex, með Charlize Theron í aðalhlutverki. Þar segir frá útivistarkonu sem kemst heldur betur í hann krappan í óbyggðum því þar leynist fleira hættulegt en bara náttúruöflin. „Þessi mynd er vissulega ólík Snertingu, þriller sem gerist úti í náttúrunni, en í grunninn er ég að segja áhugaverða sögu,“ skýtur Baltasar inn í. Fyrst er samt að klára sjónvarpsverkefnið The King & The Conqueror, 8 þátta seríu sem fyrirtæki Baltasars, Rvk Studios, vann ásamt BBC og CBS og fjallar um bardagann mikla við Hastings árið 1066 – gríðarmikið verkefni sem tekið var upp í Gufunesi. Við erum sumsé komin á þann stað í dag að geta haldið utan um framleiðslu af þessari stærðargráðu?
„Já, absólútt,“ svarar Baltasar ákveðinn. „Þetta er draumur sem ég átti mér, alveg síðan ég kom hingað og sá þessar byggingar hér fyrir um 20 árum. Ég treysti mér ekki í þetta þá en þetta hefur alltaf blundað í hausnum á mér. Svo kom augnablikið þar sem ég sagði við sjálfan mig að nú ætlaði ég að gera þetta og 2016 lét ég loks verða af því. Ég skal segja þér eins og er, að fólk hélt að ég væri búinn að tapa vitinu, og ég er ekki að grínast með það, sannfært um að nú myndi ég reisa mér hurðarás um öxl. En þetta er að ganga, og ganga vel. Það er búið að taka hér stór verkefni og fullt á döfinni, og þetta er búið að skapa alveg nýjan vettvang í íslenskri kvikmyndagerð.“
Þar með klárum við úr kaffibollunum, næsti fundur bíður Baltasars. Hann þarf að hitta fólk svo hann geti haldið áfram að gera það sem knýr hann áfram hvern dag – að segja sögur.
Texti: Jón Agnar Ólason