Mikil fjölbreytni í náttúrufari og afþreyingu
Mikil fjölbreytni er í náttúrufari á Suðurlandi og líklega hvergi meiri á Íslandi. Jöklar, eldfjöll, eldfjallaeyjur, háhitasvæði, jökulár, svartir sandar, víðáttumikil gróin undirlendi, mýrar, stöðuvötn í öllum stærðum og gerðum, ósnortið hálendi og langar svartar sjávarstrendur. „Suðurland er stórt svæði og margt í boði hvort sem það er þéttbýlinu eða úti í guðsgrænni náttúrunni“ segir Dagný Hulda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands.
„Til að nefna einhver sérkenni svæðisins má nefna Hveragerði sem er blómstrandi bær og stundum nefndur „heitasti bærinn“ – það er ekki algengt að jarðhita- og hverasvæði séu innan bæjarmarka.“
Selfoss er miðstöð þjónustu á Suðurlandi, þar er t.d. að finna úrval verslana og veitingastaða. Þá var Fischer-setrið opnað á Selfossi síðastliðið sumar en um er að ræða safn með ýmsum munum sem tengjast skáksnillingnum Bobby Fischer.
Margir heimsækja Húsið á Eyrarbakka þar sem Byggðasafn Árnesinga er til húsa og geta gestir fræðst þar um sögu og menningu svæðisins. Þá ganga margir í fjörunni við Eyrarbakka og Stokkseyri. Ferðamenn hafa gaman af því að koma á svarta strönd.
„Í Þorlákshöfn er sú nýjung í boði að ferðamönnum gefst kostur á að heimsækja fiskvinnslu og smakka svo á afurðum hennar á kaffihúsi í bænum.“
Gamla laugin er náttúrulaug og jafnframt elsta sundlaug landsins. Hún er staðsett í Hverahólmanum rétt við Flúðir og var opnuð almenningi í sumar eftir endurgerð. „Hún er skemmtileg nýbreytni á svæðinu.“ Þar er einnig lítill goshver sem gýs reglulega.
Þá er mikið um hestatengda afþreyingu á Suðurlandi en hægt er að fara í lengri og styttri hestaferðir fyrir þá sem það kjósa. Einnig er hægt að njóta hestasýninga og hestaleikhúss sem er skemmtileg viðbót við þá afþreyingarflóru sem fyrir er.
Katla jarðvangur nær frá Hvolsvelli í vestri að Skeiðarársandi í austri og er áhugavert svæði. Nýlega voru gefin út gönguleiðakort með fjölbreyttum leiðum á svæðinu sem nýtast innlendum sem erlendum gestum. Ein af gönguleiðunum er t.d. Klausturstígurinn við Kirkjubæjarklaustur. „Klausturstígurinn er um það bil 20 kílómetra gönguleið sem nýbúið er að merkja og þar hefur einnig verið gerður skemmtilegur ratleikur sem hentar fyrir alla fjölskylduna.“
Dagný Hulda segir að ferðir á jöklana á svæðinu hafi verið mjög vinsælar hjá ferðamönnum undanfarin misseri. „Gott aðgengi að jöklum er eitt af því sem gerir Suðurland sérstakt því þar er hægt t.a.m. að komast í tæri við hina ýmsu skriðjökla og fara í jöklaferðir á breyttum jeppum eða snjósleðum.“
Safnið Eldheimar var opnað í Vestmannaeyjum í sumar þar sem er glæsileg gosminjasýning sem miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973.
Dagný Hulda nefnir einnig að Suðurlandið sé mikil matarkista og hefur t.d. framboð á matvælum úr héraði aukist til muna undanfarin ár. Sérstaklega hefur verið unnið með þróun matartengdrar ferðaþjónustu t.d. í Ríki Vatnajökuls og í Uppsveitum Árnessýslu.
„Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi í heimsókn sinni á Suðurland.“
-S.J.
Callout box: Gamla laugin er náttúrulaug og jafnframt elsta sundlaug landsins. Hún er staðsett í Hverahólmanum rétt við Flúðir og var opnuð almenningi í sumar eftir endurgerð