ÖSKUBUSKA ÍSLENSKRA BÓKMENNTA

JÓN TRAUSTI – ÖSKUBUSKA ÍSLENSKRA BÓKMENNTA

Fyrir nokkru þegar við vorum að leita að íslenskum hljóðbókum á veraldarvefnum rákumst við á söguna Önnu frá Stóruborg eftir Jón Trausta á hljóðbókavefnum Hlusta.is en þar er einnig hægt að nálgast flestar aðrar sögur þessa merka rithöfundar og njóta þeirra gegn vægu gjaldi. Það kom okkur á óvart hve margar skáldsögur Jón Trausti hafði skrifað. Því ákváðum við að kynna okkur sögu hans.

Jón Trausti, eða Guðmundur Magnússon eins og hann hét réttu nafni, var á sínum tíma einn vinsælasti rithöfundur Íslands á fyrstu áratugum 20. aldar. Má með nokkrum sanni segja að hann hafi ásamt Torfhildi Hólm verið fyrsti skilgreindi skáldsagnahöfundur okkar Íslendinga. Sögur hans sem sprottnar eru úr íslenskum raunveruleika fundu sér samhljóm í hjörtum landsmanna. Það voru örlagasögur sem Íslendingar tengdu við. Til marks um hvað Jón Trausti átti stóran sess í hjörtum sinnar samtíðar má vitna í orð Halldórs Laxness úr bókinni Í túninu heima: „Jón Trausti, Guðmundur Magnússon frá Hrauntanga í Öxarfjarðarheiði, stendur mér fyrir hugskotssjónum sem einn mestur undramaður að verið hafi í íslenskri sagnasmíð fyrr og síðar. Allir vetur mínir heima eru tengdir minningunni um nafn þessa manns og verka hans.“anna

En það sem færri vita er að saga Guðmundar Magnússonar var engu síður mikil örlagasaga sem fáa lætur ósnortna. Má segja að þar sé ævintýrinu um Öskubusku snúið upp á íslenskan veruleika; þar er það fátæki sonurinn í koti karls sem hreppir prinsessuna að lokum, ef svo mætti að orði komast.

jon-traustiGuðmundur fæddist á Rifi á Melrakkasléttu 12. febrúar árið 1873. Rif mun vera nyrsti bærinn á Íslandi. Foreldrar hans voru þar í húsmennsku og efnin því lítil. Vorið eftir að Guðmundur fæddist fluttu þau að heiðarbýlinu Hrauntanga í Öxarfjarðarsýslu og bjuggu þar við mikla fátækt að því er heimildir herma. Árið 1877 dó faðir Guðmundar. Guðbjörg þraukaði í tvö ár eftir það, en varð svo að koma Guðmundi í fóstur á Skinnalóni, en þar dvaldi hann næstu fimm árin. Á þessum árum voru erfiðir tímar á Íslandi sem bitnaði á öllum, ekki síst niðursetningum. Af reynslu sinni frá þessum tíma hefur Guðmundur sagt í greininni „Vorharðindi“.

Árið 1882 giftist móðir Guðmundar aftur og hóf búskap á harðbýlli jörð við sjóinn við Rauðanúp. Fluttist Guðmundur þá aftur til móður sinnar. Var hann þá tíu ára gamall. Eins og gefur að skilja var lítið um almennt skólanám fyrir drenginn.
Þó að lífsbaráttan hafi þar einnig verið hörð og fátæktin mikil leið Guðmundi betur þegar hann var aftur í samvistum við móður sína. Lífið við sjóinn og nyrstu voga hafði mikil áhrif á hann og stöðugar árásir brimsins á ströndina þar heima rótaði upp í huga hans og bar hann þetta brim með sér alla æfi, hvert sem hann fór.

Eftir fermingu var ekki um annað að ræða fyrir Guðmund en að halda í vinnumennsku, þrátt fyrir að hugur hans stæði engan veginn til slíkra starfa. Eftir tvö ár sem vinnumaður þar nyrðra ákvað hann að kveðja æskustöðvarnar og halda til Austfjarða í leit að betra lífi. Var þetta mikið ferðalag fyrir gangandi mann með aleiguna á bakinu, en leiðin telur um 300 kílómetra. Fékk hann vinnu sem prentari hjá Skafta Jósefssyni ritstjóra blaðsins Austra sem gefið var út á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði kynntist Magnús menningu og bókmenntum í víðara samhengi en áður. Þar tók hann einnig ástfóstri við leiklistargyðjuna sem fylgdi honum alla tíð síðan.

Um sumarið 1895 hélt Guðmundur svo til Reykjavíkur og fékk starf við Ísafoldarprentsmiðju. Haustið eftir (1896) sigldi hann utan til að læra meira í prentiðn. Var hann þar í tvö ár. Hefur það ekki verið auðvelt fyrir mann sem engan hafði til að styrkja sig, enda segir hann um dvöl sína þar: „Ég barðist þar mínar 9 – 10 stundir á dag við hungrið, en það sem þá var afgangs dagsins, fyrir hugsjónum mínum. Fyrrnefnda baráttan gekk illa – hin síðari skár.“

Árið 1898 sneri Guðmundur aftur til Íslands og kvæntist Guðrúnu Sigurðardóttur. Lifðu þau saman þar til Guðmundur lést 1918. Ekki eignuðust þau börn sem upp komust, en tóku að sér eina kjördóttur, Mörtu Magnúsdóttur. Reistu þau hjón gott hús á Grundarstíg 15.

Árið 1898 kom út fyrsta ljóðabók hans er nefndist Heima og erlendis. Þóttu ljóðin ekki nýstárleg eða frumleg. Guðmundur lét samt ekki þar við sitja og fimm árum síðar, kom önnur ljóðabók út eftir hann sem hann kallaði Íslandsvísur. Var hún myndskreytt af honum sjálfum og Þórarni B. Þorlákssyni listmálara. Ljóðin í þeirri bók voru töluvert þroskaðri en í hinni fyrri og þar má finna þekkt ljóð, eins og Ég vil elska mitt land og Draumalandið. Fékk hún afleita dóma. Sérstaklega var einn dómurinn rætinn. Um hann sagði hann síðar: „Engin bóka minna hefur haft jafn mikil áhrif á líf mitt og þessi. – Ráðist var á bókina af slíkum ódrengskap og illgirni, – að lengi eftir varð ég að fara huldu höfði í blöðum og tímaritum með kvæði mín, því að enginn vildi við þeim líta.”

En Guðmundur gafst ekki upp. Hann hafði verið að vinna að stóru leikriti í ljóðum sem nefndist Teitur og fékk styrk út á það sem hann nýtti til að fara í aðra utanlandsför og nú heimsótti hann Sviss, Holland og England.

Svo er það árið 1906 að út kemur ný skáldsaga á Íslandi sem nefndist Halla. Var hún eftir ókunnan höfund sem kallaði sig Jón Trausta. Var engum blöðum um það að fletta að sagan hlaut fádæma góðar viðtökur. Brá mörgum í brún þegar upp komst að höfundur þessarar sögu var enginn annar en Guðmundur Magnússon, ljóðskáldið vonda.
Um þetta sagði Guðmundur síðar og er þá að vísa til dómsins rætna sem hann hafði hlotið fyrir ljóðabók sína: „Og þegar ég byrjaði að skrifa sögur, var ekkert viðlit að birta þær undir mínu nafni. Þá fyrst, er sögurnar höfðu unnið sér góðan orðstír undir dulnafninu, var vogandi að segja til höfundarins. – Beiskjan, sem þetta vakti í skapi mínu, kemur einna skýrast fram í skáldsögunum Leysingu og Borgum.“
Sagan segir að Guðmundur hafi sjálfur sett bókina Höllu en um það segir Valtýr Stefánsson í grein um Guðmund sem birtist í Morgunblaðinu árið 1939: „Starfsbræður hans í Gutenberg héldu því fram síðar, að hann hefði ekki alltaf haft handrit fyrir framan sig, er hann stóð við setjarakassann. Að hann hafi ekki samið með bleki og penna eins og tíðkast, heldur sett kafla í bókinni óskrifaða. Handrit, vandað, er til af Höllu, sem og öðrum skáldsögum hans, hvað sem hæft er í þessu. En það væri eftir Guðmundi að hann hafi kunnað suma kafla utanað og því ekki þurft að fylgja handritinu eins og aðrir prentarar.”

Nú var komið að nýjum kafla í lífi Guðmundar og hann öðlaðist í kjölfarið viðurkenningu sem mesti rithöfundur landsins. Fram að því höfðu íslenskir rithöfundar ekki mikið lagt sig eftir að skrifa skáldsögur. Var það helst Jón Thoroddsen, Torfhildur Hólm og Jónas frá Hrafnagili.
En nú var allur byrjendabragur af íslensku skáldsögunni og því má segja að Guðmundur Magnússon hafi brotið blað í íslenskri skáldsagnagerð með útkomu bókarinnar Höllu og næstu bóka.

Á þeim tólf árum sem hann lifði eftir að Halla kom út skrifaði hann átta skáldsögur og þá liggja eftir hann níu smærri sögur. Þekktustu sögurnar voru Halla sem áður er nefnd og síðan komu fjórar sögur í flokknum Heiðarbýlið. Og þá má ekki gleyma stórvirkinu Anna frá Stóruborg.

Það er rétt að taka það fram að allan þann tíma sem hann fékkst við skriftir vann hann samhliða sem prentari, auk þess sem hann átti sér fjölmörg áhugamál sem hann stundaði af fullum krafti. Leiklistin var honum alltaf ofarlega í huga og hann málaði leiktjöld fyrir sýningar, lék nokkrum sinnum smærri hlutverk og stundaði sögulegar rannsóknir. Hann elskaði tónlist og keypti sér orgel sem hann lærði sjálfur á. Þá kom hann upp sérlega fallegum garði við heimili sitt að Grundarstíg 15, sem ekki var algengt í þá daga. Guðmundur var líka mjög drátthagur og á ferðalögum teiknaði hann margar myndir úr náttúrunni sem hann lét fylgja ferðapistlum sínum. Er með ólíkindum hvað Guðmundi Magnússyni tókst að afreka á ekki lengri æfi.

Guðmundur lést árið 1918 úr spænsku veikinni og var þá nýkominn úr ferð að rótum Kötlu sem þá var að gjósa.

Því má svo bæta við að við urðum aldeilis ekki fyrir vonbrigðum með söguna um hana Önnu frá Stóruborg. Í henni endurspeglast hæfileiki Guðmundar að fanga fortíðina á dramatískan hátt en um leið að spegla samtíma sinn. Í sögunni segir frá ástum alþýðustráksins Hjalta og yfirstéttarkonunnar Önnu og baráttu þeirra við samfélagið og sterku öflin. Er sagan byggð á heimildum og munnmælasögum.

Heimildir:
• Karlssonur vinnur konungsríki – Grein eftir Sigurð Sigurmundsson í Hvítárholti – Birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 12. maí 1983.
• Skáldsagnahöfundurinn sem setti bækur sínar sjálfur – Grein eftir Valtý Stefánsson – Birtist sunnudaginn 10. desember árið 1939.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0