Ferðaþjónustan á Norðurlandi vill beint tengiflug frá Keflavík

Ferðaþjónustan á Norðurlandi vill beint tengiflug frá Keflavík

 

„Starfssvæði Markaðsstofu Norðurlands nær frá Hrútafirði í vestri, í Bakkafjörð í austri. Þetta er mjög fjölbreytt svæði og mismunandi áherslur innan þess. Það gengur mjög vel í heildina litið. Sumarið hefur verið frábært. Það sem er sérstaklega ánægjulegt er það að jaðarsvæðin okkar eru að fá mikla aukningu í ferðamannastraum til sín. Hið sama gildir um jaðartímabilin. Vinsælustu staðirnir á okkar starfssvæði hafa verið að upplifa um 30 prósenta aukningu samanborið við í fyrra. Aukningin er hins vegar mun meiri á jaðarsvæðunum. Þar er jafnvel talað um 50 prósenta aukningu frá sumrinu 2015. Núna í september erum við svo að sjá allt upp í 70 prósenta aukningu samanborið við september í fyrra,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Nýjir möguleikar opnast
Arnheiður segir að skýringarnar á þessari miklu aukningu í fjölda ferðamanna sem sækja Norðurland heim eigi sér einkum tvíþætta skýringu. „Fólk er að uppgötva Norðurland í meira mæli en áður. Það hefur líka áhrif hversu þéttsetið það er orðið til að mynda í gistinu á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Þá leita ferðamenn annað og inn á ný svæði. Síðan hefur mikil uppbygging átt sér stað í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Í fyrra var gert mikið átak varðandi opnunartíma þannig að staðir höfðu opnuðu fyrr á vorin og höfðu opið lengur fram á haust og vetur. Þetta er að skila sér núna.“
Nýjustu fréttir af áformum fjárveitingavaldsins á Alþingi hafa aukið bjartsýni innan ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. „Demantshringurinn svokallaði er kominn á vegaáætlun,“ segir Arnheiður. „Það snýr að því að lokið verði við að gera góðan veg vestan megin við Dettifoss. Gangi sú fjármögnun eftir sem gert er ráð fyrir í nýrri samgönguáætlun frá Alþingi þá verður hægt að aka hringinn frá Mývatnssveit að Dettifossi og síðan áfram niður í Ásbyrgi og þaðan til Húsavíkur. Í dag verður fólk að aka þetta fram og til baka. Tilkoma þessa vegar verður gríðarlegur munur. Bæði opnar það leið í Ásbyrgi, Hljóðakletta og allt það svæði, en það mun líka opnast leið á hið svokallaða norðurhjarasvæði sem er Melrakkasléttan og Langanesið með Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn. Á því svæði hefur orðið breyting á þjónustunni og komnir spennandi staðir og skemmtilegir að heimsækja. Þar má nefna fuglaskoðun á Langanesi og forystufjársetur í Þistilfirði. Náttúrufar þarna og mannlíf er hvorutveggja afar sérstakt. Þarna er að finna hið ekta eða upprunalega Ísland ef má orða það svo.“

Bryddað upp á nýjungum
Vesturhluti Norðurlands er þó hvergi gleymdur. „Þar má nefna að við sjáum nú mjög vaxandi umferð um Vatnsnesið. Þar fer fólk meðal annars til að skoða selina og Hvítserk. Á vestanverðu Norðurlandi eru líka spennandi verkefni í gangi svo sem í tengslum við skáldsöguna Náðarstund sem segir söguna af Agnesi og Friðrik, morðum og síðustu aftökunni á Íslandi. Nú eru seldar ferðir þar sem farið er á þá sögustaði á Norðurlandi vestra sem tengjast þessum atburðum. Það er líka hægt að kaupa ferðir á sögustaði sem tengjast skáldkonunni Guðrúnu frá Lundi, bæði í Skagafirði og Fljótum. Það er áhugi og eftirspurn eftir svona ferðum og ákveðin uppbygging í gangi varðandi þær. Á Siglufirði er ferðaþjónustan svo farin að nýta sér frægðina sem skapaðist vegna spennuþáttanna Ófærð. Á austanverðu Norðurlandi má svo nefna ferðir á æfingaslóðir geimfaranna sem voru þjálfaðir fyrir tunglferðir í grennd við Öskju. Þetta eru dæmi um spennandi nýsköpunarverkefni í ferðaþjónustu sem eru nú komin af stað og lofa góðu. Það eru bæði ferðaskipuleggendur og veitingastaðir sem hafa skipulagt svona leiðsögupakka um hinar ýmsu slóðir á Norðurlandi. Þetta er allt að ganga mjög vel.“

Skíði, náttúrufar og matur
Arnheiður nefnir einnig vetrarferðaþjónustuna. „Það er síaukin eftirspurn að komast á skíði á Norðurlandi. Það er eitthvað sem menn héldu fyrir nokkrum árum að væri bara ekkert hægt að selja. En það hefur náðst góður árangur í að kynna skíðasvæðin. Þar dregur fjallaskíðamennskan vagninn. Þar fer fólk með þyrlum upp á fjallatoppa og rennir sér síðan niður hlíðarnar. Þetta er að verða mjög vinsælt á Tröllaskaga milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Það eru orðin þrjú fyrirtæki sem sinna þessu. Í kringum þessar ferðir hafa ýmsar nýjungar komið fram. Þar má nefna að skíðafólkið fer kannski í sund á Hofsósi eða siglir út í Drangey.“
Stöðugt er unnið að því að þróa ferðaþjónustuna enn frekar á Norðurlandi. „Nú er að fara af stað mikil vinna varðandi „Arctic Circle Route“ eða ferðamannaveg á heimskautshlutanum okkar hér á Norðurlandi. Við höfum verið að kortleggja leið fyrir ferðamenn til að beina þeim á ákveðna staði. Síðan eru við að vinna mikið varðandi fuglaskoðun. Það er búið að kortleggja leiðir og nú er verið að samkeyra þær og markaðssetja. Svo er mikið um að vera þegar kemur að kynningu á skíðaferðum. Svo er það verkefnið „Local food“ sem snýr að því að kynna Norðurland sem matvælahérað. Fyrstu helgina í október er einmitt haldin stór „Local food“ sýning á Akureyri með ýmsum viðburðum og matseðlum á veitingastöðum.“

Samgöngurnar ekki nógu góðar
Í dag er staðan sú á Norðurlandi að sögn Arnheiðar, að sé horft á þjónustu og afþreyingu sem er í boði er þá sé hvorutveggja orðið nægilega mikið til að ferðaþjónustan geti verið heils árs atvinnugrein víðast í landshlutanum. „Hins vegar eru það samgöngurnar sem eru okkur hindrun. Fólk á erfitt með að komast til okkar yfir vetrartímann. Ferðamenn eru ekki mjög ginkeyptir fyrir því að aka fjallvegi um vetur og flugsamgöngur há okkur mjög mikið. Þar verðum við að ná fram umbótum áður en við getum sagt að ferðaþjónustan á Norðurlandi sé alvöru heils árs atvinnugrein.“
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segist með þessu eiga við að brýnt sé að komið verði á fót beinu millilandaflugi til Akureyrarflugvallar eða að ferðamönnum gefist kostur á tengiflugi út á land beint frá Keflavíkurflugvelli. Áfangastaðir á Norðurlandi ættu að verða með í slíku tengiflugi. „Slíkt myndi styðja mjög við okkur hér nyrðra. Staðan í dag er eiginlega vonlaus hvað það varðar að erlendur ferðamaður þurfi að lenda í Keflavík og taka síðan flugrútu til Reykjavíkur sem stoppar þá á Umferðamiðstöðinni. Þaðan verður ferðamaðurinn kannski að taka leigubíl út á Reykjavíkurflugvöll og fljúga síðan út á land þar sem flugfargjöldin eru dýr og jafnvel dýrari en flugferðin til Íslands. Þetta er ekki boðlegt og stór hindrun fyrir okkur.“
Aðspurð segir Arnheiður að horfunar fyrir veturinn séu þokkalegar. „Reyndar er það svo að einungis um 13 prósent erlendra ferðamanna sem koma til landsins á veturna fara til Norðurlands því samgöngumálin eru okkur svo erfið. Hins vegar sjáum við nú svo mikla aukningu á haustin og á vorin, að við erum bjartsýn á framhaldið. “

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0