Snæfellsjökull

Á Vesturlandi má finna náttúrufegurð hvarvetna

Njóttu lífsins með augun opin

Búðardalur
Búðardalur

Ef þig langar að sjá örlítið af nær öllu því sem einkennir Ísland, er tilvalið að heimsækja Vesturland. Svartar sandstrendur, hverir, rólegir kaupstaðir, tignarlegur jökull í göngufæri… Í raun má með sanni segja að á Vesturlandi sé hægt að finna brot af öllu því stórbrotnasta sem Íslands hefur upp á að bjóða.

Streymi stórkostlegra fossa

Glym, einn hæsta foss landsins, má finna á leiðinni vestur í Botnsdal, innst í Hvalfirði. Glymur fellur í tæplega 200 metra hæð og því getur gönguleiðin á toppinn verið krefjandi – en þó vel þess virði þegar komið er á leiðarenda enda útsýnið engu líkt. Hraunfossa er einnig gaman að sjá, en þeir samanstanda af ótal fossandi lindum sem renna um 900 metra undan Hallmundarhrauni, og eru oftar en ekki umluktir regnbogum. Við jaðar hraunsins rennur Barnafoss sem er þekktur fyrir fallegt umhverfi, þjóðsögu og töfra í lofti.

Glymur

Njóttu jarðfræðilegrar sérstöðu Íslands

Ísland er paradís jarðfræðinga. Meðal þess sem ekki má láta framhjá sér fara er Deildartunguhver sem talinn er vatnsmesti hver Evrópu, en hann gýs tæplega 200 lítrum á sekúndu af 100C° heitu vatni. Heitt vatnið á mót við mosa og grjót, sem umlykur hverinn, minnir mann á hversu frumstætt og ólgandi líf býr í eyjunni okkar Íslandi. Ef áhugi er á að upplifa frumorku landsins enn betur má heimsækja Víðgemli, stærsta helli Íslands. Þar er boðið upp á leiðsögn gegnum litríkar hvelfingarnar, skreyttar yfir þúsund ára gömlum hraunmyndum og árstíðabundnum ís. Upplifunin er engu lík og mætti ímynda sér að svona væri Ísland allt að innan. 

Deildartunguhver
Deildartunguhver

Stórbrotið Snæfellsnesið laðar að

Snæfellsnesið mætti nánast kalla miðju alheimsins, þó ekki væri vegna annars en þess að þar má finna Snæfellsjökulinn sjálfan sem er sögusvið bókar Jules Verne, Leyndardómar Snæfellsjökuls – þar sem fjallað er um ferð gegnum miðju jarðar. Undir Snæfellsjökli liggur virk eldstöð en gossögu hennar má rekja a.m.k. 700 þúsun ár aftur í tímann og var síðasta gos fyrir 1900 árum síðan. Hæð jökulsins er 1.446 m og sést hann því vel frá Reykjavík á sólríkum degi.

Snæfellsjökull

Á vestanverðu Snæfellsnesi, auk Snæfellsjökuls, eru þorpin Hellissandur, Ólafsvík og Grundarfjörður sem gaman er að heimsækja. Mikið er um fuglalíf, fallegar bergmyndanir og náttúru og eru Arnarstapi og Hellnar sérlega vinsælir áningastaðir. Fjallið Kirkjufell á norðanverðu Snæfellsnesi er vinsælt myndefni enda eitt sérkennilegasta fjall Íslands.

Kirkjufell
Kirkjufell

Mælt er með að eyða a.m.k. vikutíma í að heimsækja þennan hluta Vesturlands, enda fegurð og sérstaða svæðisins eitthvað sem ætti að kanna vel og njóta til hins ýtrasta á ferð um landið.