Þorpið í Flatey við Grýluvög, rétt undir miðnætti í júlí.

Aftur um 100 ár

Flatey í Breiðafirði var um margar aldir, stórbýli og einn helsti verslunarstaður á Íslandi. Fyrst komu Englendingar að versla á síðari hluta 15 aldar, en þýskir Hansakaupmenn boluðu þeim burt á þeirri sextándu og ríktu í heila öld, þangað til Danir komu upp einokunarverslun árið 1602. Létu þeir reyndar Hollendinga sjá um viðskiptin í Breiðafirði næstu 150 árin, og högnuðust Niðurlendingar vel á þeim viðskiptum og verslun í Flatey. Eyjan er ekki stór, 2 km löng og 500 m breið, en undir Flatey heyra 40 smáeyjar og hólmar. Í dag er einstakt að koma í Flatey, en það er eins og tíminn hafi stoppað í eyjunni fyrir hundrað árum. Húsin í þorpinu hafa öll verið gerð upp í þeim litríka stíl sem var þá, fyrir um 100 árum. Daglegar siglingar eru í Flatey, frá Stykkishólmi á Snæfellsnesi og Brjánslæk á Barðaströnd. Íbúar eyjunnar eru nú fimm yfir vetrarmánuðina, en á sumrin iðar Flatey af lífi, búið í hverju húsi. 

Róið úr Grýluvogi, Eyjan Klofningur fyrir utan, og Oddbjarnasker í fjarska.

Flatey 29 & 30/07/2020 23:07 & 13:59 – A7R IV : FE 1.4/50mm ZA, FE 1.8/135mm GM
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson