ARKITEKTÚR, BYGGINGAFRAMKVÆMDIR, LOFTSLAG.
Ákall til íslenskra fjölmiðla um að láta sig vistvæna hugsun í byggingar- og skipulagsmálum varða og taka þetta brýna viðfangsefni til sérstakrar umfjöllunar á Alþjóðlegum degi arkitektúrs, 5. október. 5. október er Alþjóðlegur dagur arkitektúrs Haldið er upp á Alþjóðlegan dag arkitektúrs 5. október ár hvert. Að þessu sinni hafa Alþjóðasamtök arkitekta (International Union of Architects – UIA) ákveðið að tengja áherslur sínar alþjóðlegum samningum um aðgerðir í loftslagsmálum (COP 21) sem verða í París undir lok nóvember og í byrjun desember. Markmiðið er að beina athygli ráðamanna og almennings að mikilvægi ábyrgrar hugsunar við hönnun og framkvæmd hins manngerða umhverfis og öllu sem vel er gert á því sviði. Vitundarvakning um vistfræðilegt mikilvægi skipulags og bygginga Á síðustu árum hefur vitund almennings og ráðamanna um mikilvægi vistvænnar hugsunar í byggingum og skipulagsmálum vissulega aukist. Fullyrða má þó að umræða um hlutdeild bygginga í ágangi á náttúruauðlindir er langtum minni en vænta mætti því byggingariðnaðurinn losar bæði beint og óbeint mikið magn óæskilegra lofttegunda og hefur margháttuð önnur óæskileg áhrif til versnandi lífsmöguleika komandi kynslóða.
„Þrátt fyrir að einungis um 7% fólks í heiminum starfi við byggingariðnað og hlutur hans í vergri landsframleiðslu sé ekki nema um 10% má rekja um helming nýtingar náttúruauðlinda og allt að 40% orkunotkunar og útblásturs gróðurhúsalofttegunda til byggingariðnaðar.” Íslenskir fjölmiðlar fjalli meira um nýjar vistvænar áherslur Arkitektafélag Íslands beinir þeim eindrægnu tilmælum til allra íslenskra fjölmiðla að á Alþjóðlegum degi arkitektúrs, 5. október leggi þeir arkitektum lið við að auka vitund almennings um mikilvægi vistvænnar nýhugsunar í byggingarmálum.
Þetta geta fjölmiðlar gert með ýmsu móti og það ágæta fólk sem við fjölmiðla starfa er fullfært um að finna sjálft áhugaverð sjónarhorn til umfjöllunar um það lífsspurmál sem hér um ræðir. En til að auðvelda þeim leikinn vil ég benda á nokkra hugsanlega viðmælendur, fagfólk sem hefur verið mjög virkt og býr yfir þekkingu á þessu sviði. Listinn sem fylgir þessu bréfi er þó langt í frá tæmandi og hjá Arkitektafélagi Íslands og Vistbyggðarráði má fá enn fleiri ábendingar. Hvað hafa íslenskir arkitektar verið að gera í málinu? Vistmennt Íslenskir arkitektar og annað fagfólk í byggingariðnaði hefur með ýmsu móti brugðist við knýjandi þörf fyrir ábyrga nýja hugsun.
Má í því sambandi nefna Vistmenntaverkefnið sem var samstarfsverkefni innlendra og erlendra aðila, styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins og stýrt af Arkitektafélagi Íslands. Vistmenntaverkefnið fól í sér útgáfu íslensks námsefnis um sjálfbærni í byggðu umhverfi, námskeiðs- og ráðstefnuhalds. Vistbyggðarráð Einnig má nefna að Vistbyggðarráð sem 32 fyrirtæki (aðallega arkitekta- og verkfræðistofur) og stofnanir í byggingariðnaði tóku sig saman um að stofna í febrúar 2010. Starfsemi Vistbyggðarráðs hefur verið mjög þýðingarmikil í vitundarvakningu og stefnumótun, það stendur fyrir opnum fundum, námskeiðum, ráðstefnum og málþingum um hvaðeina sem tengist vistvænni byggð, skipulagi og þróun. Vistbyggðarráð gaf nýverið út bæklinginn Vistvænt skipulag þéttbýlis. Útgáfan var styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og unninn í samstarfi við Skipulagsstofnun, Arkís og Háskólann í Reykjavík Betri borgarbragur Sameiginlegt rannsóknarverkefni fulltrúa sjö fagaðila í byggingariðnaði sem fjallaði á mjög ítarlegan hátt um hið byggða umhverfi, með áherslu á hvernig gera mætti þéttbyli umhverfisvænna og sjálfbærara.
Tækniþróunarsjóður Rannís veitti verkefninu Öndvegisstyrk árin 2009 – 2012. Verkefnið hefur verið kynnt fjölda aðila í ræðu og riti innan lands og utan. Hæg breytileg átt Síðast en ekki síst mætti svo nefna verkefni sem nefnt var Hæg breytileg átt – þverfaglegan vettvang hugmynda á sviði húsnæðis og byggðaþróunar. Efnt var til gagnrýninnar þverfaglegrar samræðu um ríkjandi viðmið, kerfi og aðferðirog reynt að finna nýjar leiðir í mótun og úrvinnslu hugmynda. Hönnunarsjóður Auroru átti frumkvæði að verkefninu en auk sjóðsins voru Búseti, Félagsbústaðir, Félagsstofnun stúdenta, Hönnunarmiðstöð Íslands, Listaháskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Samtök Iðnaðarins, Upphaf fasteignafélag og Velferðarráðuneytið bakhjarlar verkefnisins.
Opinn fundur í Hannesarholti 5. október Í tilefni að Alþjóðlegum degi arkitektúrs stendur Akitektafélag Íslands fyrir opnum fundi klukkan 16,00 til 18,00 í Hannesarholti um næstu skref í átt til aukinnar ábyrgðar í skipulags- og byggingarmálum með tilliti til sjálfbærni. Dagskrá fundarins verður tilkynnt nánar síðar. Bestu kveðjur, Hallmar Sigurðsson framkvæmdastjóri [email protected] +354 896 0779 Vonarstræti 4 B, 101 Reykjavík (skrifstofan er opin all virka dag milli klukkan 9 og 13) Þessu bréfi fylgir listi með nöfnum nokkurra íslenskra arkitekta sem eru undir það búnir að fjölmiðlar beini til þeirra spurningum: Nokkrir arkitektar sem hafa látið sig sjálfbærni mikið varða og eru undir það búnir að fjölmiðlar beini til þeirra spurningum: Aðalheiður Atladóttir arkitekt FAÍ Formaður Arkitektafélags Íslands. Er í hópi þeirra ungu arkitekta sem líta á það sem sjálfsagðan og eðlilegan útgangspúnkt í sköpun sinni að vistvænar lausnir séu í fyrirrúmi. Hún er einn af höfundum Framhaldsskólans í Mosfellsbæ.
Við hönnun hans og byggingu var sérstök áhersla lögð á vistvænar leiðir og útfærslur enda kennir skólinn sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og eru þær áherslur samfléttaðar við skólastarfið. Aðalsteinn Snorrason arkitekt FAÍ Hann er einn af höfundum bókarinnar Val á vistvænni byggingarefnum, meðeigandi arkitektastofunnar Arkís sem verið hefur aðili að Vistbyggðarráði frá upphafi. Anna María Bogadóttir arkitekt FAÍ Var formaður stjórnar verkefnisins Hæg breytileg átt. Anna María er menningarfræðingur og arkitekt. Hún lauk framhaldsnámi í menningarfræði og upplýsingatækni í Kaupmannahöfn og starfaði í tæpan áratug við menningar- og sýningastjórn áður en hún hélt til New York þar sem hún lauk M.Arch gráðu frá Columbia University árið 2010. Hún hefur unnið á arkitekta- og borgarhönnunarstofum í New York og Miami og fæst nú við hönnun,
ráðgjöf og rannsóknir á borgarumhverfi auk kennslu við Listaháskólann og Háskóla Íslands. Anna Sigríður Jóhannsdóttir arkitekt FAÍ Anna Sigríður hefur einbeitt sér að vistvæni í hönnun bygginga á liðnum árum. Hún hefur tekið virkan þátt í starfi Vistbyggðarráðs og Nordic Built. Hún er einn af höfundum verðlaunatillögu VA arkitekta í samkeppni Nordic Built um vistvænan arkitektúr við endurbyggingu eldri húsa. Þar voru byggingar við Höfðabakka 9 teknar til gagngerrar endurskoðunar. Anna Sigríður er höfundur að ritinu Dagsbirta og vistvæn lýsing í ritröð Arkitektafélags Íslands og Vistmenntar. Hún hefur kennt námsefnið við Listaháskóla Íslands og verið fyrirlesari á ýmsum vetvangi.
Baldur Ó. Svavarsson arkitekt FAÍ Hefur rekið arkitektastofuna Úti og inni sf. s.l. 25 ár í samstarfi við Jón Þór Þorvaldsson. Fæst sem stendur við hönnun á nýjum grunnskóla í Urriðaholti í Garðabæ. Í anda skipulags Urriðaholtshverfisins mun skólinn hafa sjálfbæra þróun, fjölbreytileika og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi í allri uppbyggingu og kennslu. Skólinn er hannaður undir formerkjum BREEAM vistvottunarkerfisins og verður vottaður sem síkur að framkvæmdum loknum. Björn Guðbrandsson arkitekt FAÍ Hann er einn af höfundum bókarinnar Val á vistvænni byggingarefnum, meðeigandi í arkitektastofunni Arkís sem verið hefur aðili að Vistbyggðarráði frá upphafi. Egill Guðmundsson arkitekt FAÍ Hann er einn af höfundum bókarinnar Val á vistvænni byggingarefnum, meðeigandi arkitektastofunnar Arkís sem verið hefur aðili að Vistbyggðarráði frá upphafi.
Hrólfur Karl Cela arkitekt FAÍ Hann var lengst af tengiliður stjórnar AÍ við Vistmenntaverkefnið og er meðeigandi í arkitektastofunni Basalt arkitektum sem eru aðlhönnuðir Bláa lónsins og í hópi stofnenda Vistbyggðaráðs. Halldór Eiríksson arkitekt FAÍ Halldór var einn af frumkvöðlum Vistmenntaverkefnisins og virkur þátttakandi í því frá upphafi til enda. Hann er meðeigandi í T.ark arkitektum sem verið hefur félagi í Vistbyggðarráði frá upphafi. Hann er aðalhönnuður nýs verknámshúss við Fjölbrautaskólann á Selfossi, en framkvæmdir við það hófust í sumar.
En það var unnið m.a. útfrá vistvænum forsendum og er skref í átt að eflinu verknáms á framhaldsskólastigi. Sigríður Magnúsdóttir arkitekt FAÍ Var formaður AÍ á þeim tíma þegar Vistmenntaverkefninu var komið á. Hún er meðeigandi í teiknistofunni TRöð sem er í hópi stofnaðila Vistbyggðarráðs. Sigrún Birgisdóttir arkitekt FAÍ Sigrún er deildarforseti Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Hún hefur í störfum sínum lagt áherslu á þróun samfélagslegra verkefna. Meðal samstarfsverkefna má nefna verk Vatnavina, sem er þverfaglegur samstarfshópur um uppbygginu heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi.
Undir yfirskriftinni Heilsulandið Ísland hafa Vatanvinir kortlagt laugar og kannað möguleika uppbyggingar, og unnið að endurbótum á eldri laugum og baðstöðum víða um land. Vatnavinir hlutu Global Award for Sustainable Architecture árið 2011 Sigurður Harðarson arkitekt FAÍ Hann er, ásamt Magnúsi Jónssyni veðurfræðingi, höfundur bókarinnar Veðurfar og byggt umhverfi og einn meðeiganda í Batteríinu arkitektum sem eru í hópi stofnenda Vistmenntaráðs.