Listakonan Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir býr á Eyrarbakka og sækir innblástur í náttúruna og veðrið. Hún er nú að vinna að stórri einkasýningu sem verður í Vilníus í sumar.
Allt frá því að Ásta var barn vissi hún að hún myndi vinna einhvers konar skapandi vinnu en hún fór ekki strax út í list. „Ég hugsa að ég hafi ekki haft kjark til að fara beint í list og fór því í fatahönnun í Þýskalandi sem var fín leið að listinni. Ég lærði mikið af því.“ Hún flutti svo heim 1997 eftir 17 ára búsetu í Þýskalandi.
Hún bjóst við því að þurfa að fara út í búningahönnun þegar hún flutti heim. „Mér fannst einhvern veginn eins og það væri ekki möguleiki að búa til föt á Íslandi. Mér datt það einhvern veginn ekki í hug. En svo var einhver stemning í samfélaginu á þessum tíma og ég stofnaði fatahönnunarfyrirtækið ásta créative clothes og búð á Laugaveginum. Það var mikil gróska á þessum tíma.“
Eftir hrunið 2008 varð Ásta að loka búðinni. „Reksturinn varð erfiður en það var í rauninni ágætt. Það var erfitt að loka en í raun það besta sem hefur komið fyrir mig. Ég ákvað þá að fara meira út í list.“ Eftir á hafi hún eiginlega verið frelsinu fegin, eftir 10 ár í verslunarrekstri. „Þetta var samt ótrúlega skemmtileg og góð reynsla.“
Síðan þá hefur hún verið að vinna að listinni, en grunnurinn er sá sami þar og í fatahönnuninni. „Ég sæki innblástur úr náttúrunni. Ekki bara íslenskri heldur allri náttúru. Íslenska veðrið er þó sér á báti og hefur mótandi áhrif á okkur. En það er ekkert eins fallegt og náttúran, hún er kennari okkar.“
Fyrir fjórum árum síðan tók hún svo þá ákvörðun að flytja vinnustofu sína á Eyrarbakka sem og að gera upp gamalt hús. „Það er ótrúlega fallegur staður og stutt í náttúruna. Ég er sérstaklega hugfangin af þangi og þara þessa stundina, enda ekki langt að sækja það. Mér finnst mest gaman að nota efniviðinn sem er í kringum mig.“
„Verkin mín eru þannig að það má yfirleitt koma við þau á sýningum. Mér finnst það vera partur af upplifuninni. Eitt sinn hélt ég sýningu sem kallaðist Rippling í Tokyo ásamt japanska listamanninum Takuya Komaba. Það var í frekar litlu rými og ég hélt að fólk myndi bara standa og skoða verkið sem var gert úr óteljandi þráðum. En svo var fólk alltaf að fara inn í verkið. Ég átti alls ekki von á því en fannst það frábært. Fólk var að skríða undir og leggjast á gólfið. Mér finnst geggjað að sjá fólk upplifa listina svona.“
Þessa stundina er Ásta að vinna að stórri sýningu sem verður haldin í Marija & Jurgis Slapelis Museum í Vilníus í sumar. „Ég hef haldið sýningu þar áður með öðrum, en nú var mér boðið að halda einkasýningu.“ Framtíðin er full af verkefnum. Hún mun halda vinnustofur og hátíð á Eyrarbakka, svo verður vinnustofa í Máritíus og ferðir til Suður-Kóreu. Eins er hún einn af rekstraraðilum Kirsuberjatrésins. „Það er alltaf nóg að gera,“ segir Ásta brosandi að lokum.