Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 hlýtur skáldsagan Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur Ljósmyndari   Johannes Jansson

 
Auður Ava Ólafsdóttir tók við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs úr hendi Mette-Marit, krónprinsessu Noregs, fyrir skáldsöguna Ör á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Óperunni í Ósló.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 hlýtur skáldsagan Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Ljósmyndari Johannes Jansson

Auður Ava hlýtur verðlaunin fyrir verk sem einkennist af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli en spyr jafnframt áleitinna spurninga um lífið og dauðann.

Rökstuðningur dómnefndar

„Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Í Ör kynnumst við miðaldra karlmanni sem ferðast til stríðshrjáðs Evrópulands í þeim tilgangi að fyrirfara sér, með verkfærakassa í farteskinu. Meðan á ferðinni stendur rennur upp fyrir honum að allir eiga sér verkfærakassa og geta valið hvernig þeir beita verkfærunum. Ör er lítil bók með stórt hjarta. Hún er full af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli og spyr jafnframt áleitinna spurninga um lífið og dauðann, um einstaklinginn gegn heildinni, um forréttindi fólks, réttindi þess og skyldur í heiminum. Ekki síst þá skyldu að leyfa mennskunni að storka myrkrinu.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir árlega fimm verðlaun: Barna- og unglingabókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og umhverfisverðlaun. Hver verðlaun nema 350 þúsundum danskra króna og eru þau veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.