Á svona dimmum degi, dimmasta degi ársins á norðurhverli, hvað getur maður sagt. Sólarupprás var í morgun í Reykjavík klukkan 11:22 og settist fjórum tímum síðar klukkan 15:25. Það er helmingi lengri birtutími en í Grímsey, eða á Grjótnesi á Melrakkasléttu þar sem sólar gætir einungis í tvo klukkutíma. En það er bjart framundan, eftir 90 daga, þrjá mánuði er jafndægur að vori. Líka norður á Grjótnesi. Land & Saga / Icelandic Times var að gefa út bók um Reykjavík, bók fyrir alla þá sem hafa gaman af sögu og fróðleik um höfuðborg okkar Íslendinga. En þegar Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786, bjuggu 167 manns í Reykjavík. Þá bjuggu 38 þúsund á öllu Íslandi, og 78 þúsund í höfuðborginni Kaupmannahöfn á Sjálandi, suður í Danaveldi. Í dag búa 150 þúsund í höfuðborginni og hátt í 300 þúsund á stór höfuðborgarsvæðinu. Árið 1900 eru íbúar Reykjavíkur rúmlega fimm þúsund. Tíu áru seinna eru þeir tíu þúsund. Þegar við fáum fullveldi árið 1918 eru Reykvíkingar 15 þúsund. Árið 1924 eru íbúarnir orðnir 20 þúsund. Þegar við fáum sjálfstæði 1944, eru íbúarnir 44 þúsund. Fyrir fimmtíu árum 1973 eru þeir 84 þúsund, og hefur nú fjölgað um tæplega helming á hálfri öld. Árið 1991 fæðist 100 þúsundasti íbúinn, og nú tæplega 30 árum síðar eru borgarbúar nærri 150 þúsund. Hér koma örfáar myndir frá þessum dimma degi í höfuðborginni, Það er varla orðið bjart, þegar dimmir aftur. En… það er bjartara framundan.
Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson
Reykjavík 21/12/2023 – A7R IV : FE 1.8/135 GM