June 17, 1960

Bernhöftstorfan

 

Bernhöftstorfa 1904–1905
Bernhöftstorfa 1904–1905. (Ljósmynd: Magnús Ólafsson

Bernhöftstorfan dregur nafn sitt af T.D. Bernhöft bakara í Bankastræti 2. Íbúðarhúsið var reist nyrst á lóðinni árið 1834 ásamt brauðgerðarhúsi, móhúsi, kornhlöðu og öðrum geymsluhúsum. Þetta var fyrsta bakarí á landinu og starfaði hér til 1931. Bernhöft ræktaði skrautgarð og lét setja upp vatnspóst sem var mikið notaður og nefndur Bakarapóstur eða Bernhöftspóstur. Íbúðarhúsið stendur enn lítt haggað en hin húsin skemmdust í eldi árið 1977. Þau hafa verið endurgerð og útlit þeirra fært til fyrra horfs. Styttan Vatnsberinn frá 1937 eftir Ásmund Sveinsson (1893–1982) er minnisvarði um verkakonur sem báru vatn úr brunninum í hús bæjarins. Þegar setja átti styttuna upp árið 1949 þótti hún of óhefðbundin og hlutust af miklar deilur. Árið 1967 var styttan steypt í brons og komið fyrir í Öskjuhlíð. Það var ekki fyrr en 2011 að Vatnsberinn var loks settur þar sem honum var ætlaður staður. Fleiri verk Ásmundar má sjá í Ásmundarsafni.

Eldsvoði 1977
Eldsvoði 1977. (Ljósmynd: Gunnar Elísson)

„Vélvæðing heimilanna er, þegar öllu er á botninn hvolft, líklega það framfaraspor sem reynst hefur konum notadrýgra en nokkur lagasetning.“ Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Næst fyrir sunnan bakarahúsin er Gimli, sem reist var 1905 sem íbúðarhús Knuds Zimsen borgarstjóra. Það var nánast reist í auglýsingaskyni því að í bygginguna voru notaðir steyptir steinar frá verksmiðjunni Mjölni en Knud Zimsen var einn af eigendum hennar. Syðsta húsið, Amtmannsstígur 1, var reist 1838 sem íbúðarhús Stefáns Gunnlaugssonar bæjar- og landfógeta og var kallað Gunnlaugsenshús. Síðar bjó þar lengi Guðmundur Björnsson landlæknir og var húsið þá nefnt Landlæknishús. Húsaröðin er merkur hluti af byggingarsögu borgarinnar. Í skipulagstillögum frá 1967 var gert ráð fyrir að reisa stjórnarráðsbyggingu á torfunni og flytja húsin sem þar stóðu í Árbæjarsafn. Um svipað leyti reis upp hreyfing húsfriðunarfólks sem stofnaði Torfusamtökin til að berjast fyrir varðveislu húsanna. Eftir langvinnar deilur um framtíð Bernhöftstorfunnar samþykkti ríkisstjórnin 1979 að friðlýsa húsin. Útitaflið var sett upp árið 1981 og myndhöggvarinn Jón Gunnar Árnason fenginn til að hanna taflmenn við það.

17. júní, 1960
17. júní, 1960. (Ljósmynd: Pétur Thomsen)
Vatnsberar á Bókhlöðustíg upp úr 1900
Vatnsberar á Bókhlöðustíg upp úr 1900. (Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0