Á þessum árstíma, þegar bjart er allan sólahringin, er hvergi betra að vera á Íslandi en á Norðurlandi. Akureyri í botni Eyjafjarðar, er lang stærsti bærinn á landsbyggðinni, mennta og háskólabær, þjónustumiðstöð fyrir stóran hluta landsins, og auðvitað lykil staður í ferðaþjónustu fyrir norður og norðausturhluta landsins. Í bænum er fjöldi góðra veitingastaða, frábær söfn, eins og Listasafnið á Akureyri, og Safnasafnið gegnt bænum, hinu megin við fjörðin. Frá Akureyri er stutt í Mývatnssveit að Goða- og Dettifossi, í Ásbyrgi, og til Siglufjarðar og Húsavíkur, bæja sem eru vinsælir áfangastaðir allt árið. Nú í júní, hóf nýtt flugfélag Niceair, að fljúga beint til fjögurra áfangastaða, Manchester og London á Englandi, Kaupmannahafnar í Danmörku og til Tenerife suður á Kanaríeyjum. Með þessum tengingum, hefst vonandi gott og spennandi tímabil, sem tengir höfuðstað norðurlands, til hagsbóta fyrir norðlendinga og ferðafólk sem hyggst koma og upplifa norðurlandið í allri sinni dýrð.
Icelandic Times / Land og Saga fór í myndatökuleiðangur um miðnætti í miðbæ Akureyrar til að fanga stemninguna, birtuna sem varir allan sólarhringinn.



Akureyri 01/06/2022 23:10 – 01:38 : A7R IV : FE 1.2/50mm GM
Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson