Eyjabyggð

Byggð úti á sundunum 

Þegar rýnt er í loftmyndir af  Reykjavík má sjá mikið óbyggt  land á eyjunum norðan við borgina.  Stærst þessara eyja á Sundunum er  Viðey, því næst kemur Engey, þá Þerney,  Akurey, Lundey og Hólmarnir. Rétt er að  hafa Geldinganes líka með í þessum flokki,  enda aðeins lítið eiði sem skilur milli lands  og nessins.

Landsnámsmenn og afkomendur  þeirra tóku sér margir búsetu í eyjum við  Íslandsstrendur, en afar fáar þeirra eru enn  í byggð. Meðal þessara eyja var Viðey sem  þótti ein mesta kostajörð hérlendis og þar var  starfrækt klaustur frá árinu 1225 og allt til  siðaskipta.

Milljónarfélagið kom á fót umsvifamikilli  útgerð í Viðey í upphafi síðustu aldar. Þar  var reist lítið þorp og voru íbúar þess um eitt hundrað talsins þegar mest lét. Þorpið  lagðist endanlega í eyði árið 1943, en sama  ár var búskap hætt í Þerney. Í Þerney mun  einnig hafa verið kirkja fyrr á öldum. Kirkja  var í Engey fram til ársins 1765 og síðustu  ábúendur fluttu úr eynni árið 1950.

Gömlu bæjarhúsin í Engey
Gömlu bæjarhúsin í Engey

Ekki er kunnugt um byggð á Geldinganesi,  né heldur í Akurey, en hugsanlegt er að  hún hafi verið landföst við landnám. Á  Sundinu milli Akureyjar og Örfiriseyjar,  svokölluðu Hólmasundi, er dýpi aðeins 0,8  metrar á háfjöru. Kynslóðir Reykvíkinga  hafa leikið sér að því að vaða út í Hólmana  á fjöru, en sagnir eru um að þar hafi hús  einokunarverslunarinnar staðið upphaflega.

Það eru þessar miklu grynningar sem  hafa gert okkur kleift að stækka borgina  svo mjög til norðurs sem raun ber vitni, en  Sæbrautin er öll lögð á uppfyllingum frá  Kleppsvegi til vesturs, langstærstur hluti  Örfiriseyjar er nýtt land, að ekki sé minnst  á gríðarlegar landfyllingar við Sundahöfn  sem enn standa yfir og einnig austan við  Kleppsvíkina á athafnasvæði Björgunar og  þar í kring.

Eyjabyggð

Af og til hafa kviknað hugmyndir um ný  íbúðahverfi í eyjunum á Sundunum. Nú  í aðdraganda borgarstjórnarkosninga  hefur til að mynda verið rætt um stækkun  Örfiriseyjar og að þar verði reist myndarlegt  íbúðahverfi í næsta nágrenni við miðborgina,  Háskóla Íslands og Landspítala.

Lítið hefur verið rætt um byggð í  Geldinganes, en hana mætti stækka mikið og  útbúa vegtengingu með uppfyllingu frá  Kirkjusandi. Örgrunnt er þaðan yfir á Engeyjarboða á háfjöru og áður fyrr var  farið á sundriði þar á milli. Sömu sögu er að  segja af Viðey. Afar grunnt er úr Gufunesi  þangað út og mætti hugsa sér stutta brú  á milli, en nú eru uppi áætlanir um stórt  atvinnusvæði tengt kvikmyndagerð  í Gufunesi sem gæti þá tengst nýju  íbúðahverfi á austurhluta Viðeyjar.

Geldinganesið er gott byggingarland,  en skiptar skoðanir hafa verið meðal  stjórnmálamanna um hvort þar skuli reist  íbúðahverfi eða atvinnusvæði. Líklega færi  best á blandaðri byggð, en á nesinu er ein  síðasta óbyggða suðurhlíðin í Reykjavík,  sem býður upp á stórkostlegt útsýni og  mikla veðursæld, sér í lagi með aukinni  trjárækt. Frá Álfsnesi væri hægt að fara  með brú út í Þerney, en áætlanir hafa gert  ráð fyrir að svokolluð Sundabraut lægi um  Gufunes, Geldinganes og Álfsnes, en hún  er nauðsynleg forsenda uppbyggingar á  Álfsnesi.

möguleg byggingarsvæði framtíðarinnar á sundunum
Hér eru möguleg byggingarsvæði framtíðarinnar sýnd með grænum lit
Byggð án bíla

Hér að framan hefur verið gert ráð fyrir  stórauknum uppfyllingum og vegtengingum  við eyjarnar, en líka mætti hugsa sér  áætlunarferðir báta, eins og þekkist til að  mynda vel í sænska Skerjagarðinum. Best  færi líka á því að byggðin í eyjunum á  Sundunum yrði lágreist eins og á eyjunum  úti fyrir ströndum Svíþjóðar.

Undanfarna áratugi hefur lítt verið boðið  upp á lóðir undir lítil sérbýli, en það væri  einmitt sú gerð húsa sem henta myndi vel í  eyjunum. Jafnvel mætti hugsa sér hverfi með  „karakter“, til dæmis í gömlum stíl. Áhugi  á húsvernd hefur vaxið mikið undanfarin  ár, en hvergi má finna heilsteyptan gamlan  bæ hér á landi. Nærri því alltaf eru einhver  nýmóðins hús í næsta nágrenni við þau  gömlu og heildarsvipurinn verður lítill. Þá  hefur líka færst í vöxt að fólk vilji síður eiga  bifreið og að það kjósi fremur umhverfi  þar sem bílar geti ekki ekið um, eða þá að  bílaumferð sé mjög takmörkuð. 

Í Engey og Viðey mætti hugsa sér hverfi af  þessu tagi. Þar yrðu ekki leyfðir bílar og húsin  öll reist í gömlum stíl. Marglit bárujárnshús  í heilsteyptu íslensku bæjarumhverfi eins  og það var um aldamótin 1900. Slík byggð  félli vel að eyjunum og nýju hverfin myndu  minna á þorpið í Flatey á Breiðafirði.

Nálægðin við hafið er heillandi og í  eyjunum á Sundunum mætti reisa einstaklega  fallega byggð í sátt við umhverfið.

-Björn Jón Bragason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0