Dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt 2015

Dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt 2015
Föstudag 6. febrúar – opið til miðnættis

a bak vid tjoldinhekladoggjonsdottirHafnarborg tekur þátt í Safnanótt föstudaginn 6. febrúar með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Sýningar safnsins, Framköllun, svarthvítur heimur og kvikmyndaupplifun Heklu Daggar Jónsdóttur og Neisti, sýning á verkum Hönnu Davíðsson eru opnar frá hádegi til miðnættis og verða ýmsir viðburðir á dagskrá fram eftir kvöldi. Boðið verður upp á leiðsögn á pólsku um sýningarnar, Hekla Dögg Jónsdóttir tekur þátt í listamannsspjalli og Ólöf K. Sigurðardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiðir gesti um sýninguna Neisti. Börn og fullorðnir geta komið í portrett listasmiðju og síðan hlegið saman í hláturjóga. Einnig gefst tækifæri til að skyggnast bak við tjöldin og skoða geymslur safnsins í fylgd starfsmanna. Kvöldinu lýkur svo með lifandi hljóðfæraleik bræðranna Óskars og Ómars Guðjónssona, sem spila á saxófón og gítar á veitingastaðnum Gló í Hafnarborg þar sem kjörið er að setjast niður og fá sér hressingu í lok safnrölts.
Söfnin í Hafnarfirði bjóða gesti sérstaklega velkomna og minna á Safnanæturleikinn og Safnanæturstrætó sem gengur milli allra safna sem taka þátt í Safnanótt . Ókeypis er inn á öll söfnin og í Safnanæturstrætó. Dagskrá Safnanætur stendur frá kl. 19 – 24.

Dagskrá:
Hver erum við? – Portrettsmiðja
Kl. 19:00 – 21:00
Listasmiðja í portrettgerð fyrir börn og foreldra þeirra í umsjón Sigurrósar Svövu Ólafsdóttur myndlistarmanns. Portrett er listræn túlkun á persónu þar sem áhersla er lögð á andlit viðfangsefnisins.
Á bak við tjöldin – Heimsókn í geymslur safnsins
Kl. 20:00-22:00
Gestum er boðið að skyggnast á bak við tjöldin í Hafnarborg og skoða þau undur sem leynast í geymslum safnsins í fylgd starfsmanna. Hver heimsókn er stutt og tekið er á móti gestum í litlum hópum.
Tímaflakk um 100 ár – Leiðsögn á pólsku með Karolinu Boguslawska
Kl. 20:00
Zapraszamy na zwiedzanie wystaw aktualnych w Centrum Sztuki oraz Kultury Hafnaborg po polsku. Będzie to szczególna okazja aby zapoznać się z ciekawą historią ostatniego stulecia muzeum. Oprowadzi Państwa Karolina Bogusławska historyk sztuki.

Komdu í tímaflakk með Karolinu Boguslawska listfræðing á milli sýninga í Hafnarborg, Menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Karolina fræðir gesti um Hafnarborg á pólsku og leiðir þá um sýningar safnsins, Neista og Framköllun. Tilvalið tækifæri fyrir pólskumælandi til þess að kynnast listasafninu og starfsemi þess betur.
Leiðsögn um sýninguna Neisti
Kl. 20:45
Hafnarborg býður gestum safnsins í leiðsögn um sýninguna Neisti í fylgd með Ólöfu K. Sigurðardóttur forstöðumanni Hafnarborgar. Neisti er sýning á málverkum og teikningum eftir Hönnu Davíðsson (1888-1966), merkilega konu sem lifði áhugasömu lífi sem var að mörgu leyti óhefðbundið fyrir íslenska konu á þessum tíma. Hanna bjó í Hafnarfirði og nánast allt sitt líf lagði hún stund á myndlist mótaða af aðstæðum kvenna við upphaf tuttugustu aldar.
Svarthvít veröld – Framköllun Listamannsspjall
Kl. 21:15
Hekla Dögg Jónsdóttir myndlistarmaður ræðir við gesti um sýninguna Framköllun, sem er sjálfstæður svarthvítur heimur þar sem sköpun, úrvinnsla, miðlun og viðtaka listaverks eiga sér stað í sama rými. Hér er á ferðinni innsetning sem er eitt umfangsmesta verk listamannsins hingað til.
Hó Hó Ha Ha Ha – Hláturjóga með Sölva
Kl. 21:30
Bættu á þig brosi á vör og kátum hlátri í hláturjóga með Sölva Avo Péturssyni, hláturjógaleiðbeinanda og næringarþerapista.
Óskar og Ómar – Lifandi djasstónlist á Gló
Kl. 22:00
Endaðu safnaröltið á djasstónum á veitingastaðnum Gló í Hafnarborg þar sem fólk getur sest niður, fengið sér hressingu og slakað á eftir annasamt kvöld. Lifandi tónlistarflutningur verður í boði bræðranna Óskars Guðjónssonar saxafónleikara og Ómars Guðjónssonar gítarleikara.

Nánari upplýsingar:
Áslaug Íris Friðjónsdóttir, Hafnarborg, s. 585-5790

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0