Djúpivogur Perla Austurlands

Djúpivogur er lítið þorp á Austurlandi sem liggur við sunnanverðan Berufjörð. Með hækkandi sól verður mannlífið fjölbreyttara í þessu litla sjávaraþorpi, er jafnt farfuglar sem ferðamenn leggja leið sína í sveitarfélagið og njóta alls þess besta sem hin fjölbreytta náttúra á svæðinu býður upp á. Fjallið Búlandstindur (1069) setur mjög sterkan svip á útsýni frá Djúpavogi en hann er þaðan að sjá eins og píramídi enda talinn eitt formfegursta fjall við sjó á Íslandi.

Sveitarfélagið Djúpavogshreppur hefur lagt mikla áherslu á ferðaþjónustu á síðustu árum, en mikil tækifæri eru talin í þessari nýju atvinnugrein á svæðinu. Þá á Djúpavogshreppur einnig í góðri samvinnu við önnur sveitarfélög í ferðaþjónustumálum og má meðal annars nefna að síðustu tvö ár hefur Djúpavogshreppur ásamt sveitarfélaginu Hornarfirði unnið sameiginlega að því að markaðsetja Djúpavog sem vænlegan áfangastað fyrir skemmtiferðaskip og nú í sumar er von á þremur skipum. Miklar vonir eru bundnar við þetta verkefni enda er Djúpavogshöfn næsta höfn við Vatnajökulsþjóðgarð og Jökulsárlón sem hefur mikið aðdráttarafl.

Fjöldi ferðamanna á svæðinu hefur aukist umtalsvert á síðustu árum enda sífellt verið að bæta ýmsa þjónustu og afþreyingu á svæðinu. Langabúð gegnir viðamiklu hlutverki í þessum málum en húsið setur sterkan svip á bæjarmyndina. Langabúð er eitt elsta varðveitta hús á Austurlandi, byggt árið 1790. Í Löngubúð er sýning um líf og starf Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og myndskera frá Djúpavogi, minningarstofa um Eystein Jónsson stjórnmálamann frá Djúpavogi og þá er byggðarsafn á lofti hússins, auk þessa sem þar er rekið kaffihús í Löngubúð.

Í sumar stendur yfir sögusýning í veitingasal Löngubúðar sem fjallar um fyrstu búsetu manna á svæðinu, papa , landnámið og tengingar íbúa Suðausturlands við höfðingjaættir á Norðurlöndum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Sýningin er hluti af verkefninu „Söguslóð á Suðausturlandi“ en það verkefni er unnið í samvinnu fjölmargra aðila á svæðinu frá Djúpavogi að Skaftafelli. Ferðafólki gefst nú kostur á að ferðast eftir merktri söguslóð allt frá Berufirði að Skeiðarársandi en einnig er sambærileg sögusýning á Þórbergssetri í Suðursveit..

Frá Djúpavogi er hægt að fara í siglingu með ferjunni Gísla í Papey út í hina sögufrægu eyju Papey, en þangað eru daglegar ferðir yfir sumartímann með leiðsögumanni sem leiðir gesti um eyjuna þar sem sagan er við hvert fótmál. Í Papey er einnig minnsta og elsta timburkirkja landsins. Síðast en ekki síst er mjög fjölskrúðugt fuglalíf í eyjunni þar sem meðal annars er hægt að skoða lunda og aðra sjófugla, þá er einnig boðið upp á selaskoðun.

selur i Fossarvik
Þegar kemur að gistingu í sveitarfélaginu er ýmislegt í boði. Í þéttbýlinu er Hótel Framtíð, með fjölbreytta gistimöguleika, meðal annars eru þar nýleg herbergi með öllum þægindum og auk þess fjögur ný smáhýsi, þá býður hótelið einnig upp á svefnpokagistingu og tjaldsvæði á frábærum stað í miðju þéttbýlisins þar sem stutt er að fara í alla þjónustu. Í þéttbýlinu er einnig vaxandi framboð á gistingu í stökum einbýlishúsum. Þá er frábær aðstaða til gistingar í dreifbýlinu og má þar nefna gistingu og tjaldsvæði á Eyjólfsstöðum í Fossárdal og á farfuglaheimilinu Berunesi í Berufirði en báðir þessir staðir búa yfir einstakri náttúrufegurð.

Í Djúpavogshreppi er fuglalíf mjög fjölskrúðugt en frá árinu 2003 hefur ferðamálanefnd Djúpavogshrepps meðal annars unnið að sérstöku fuglaverkefni undir heitinu birds.is sem er jafnframt tilvitnun í heimasíðu verkefnisins. Verkefnið miðar að því að markaðsetja svæðið fyrir áhugamenn um fugla- og náttúruskoðun en nú á vordögum hlaut verkefnið einmitt hin eftirsóttu verðlaun „Frumkvöðull ársins á Austurlandi á afmælisári Markaðsstofu Austurlands“.

Nýlega gaf Djúpavogshreppur út gönguleiðarkort með lýsingum á 52 gönguleiðum í sveitarfélaginu, en nokkuð margar gönguleiðir liggja bæði inn á hálendið svo og með tengingum inn á gönguleiðir í öðrum sveitarfélögum. Kortið fæst á öllum helstu ferðamannastöðum í þorpinu. Frá þéttbýlinu á Djúpavogi er einnig hægt að fara í margar áhugaverðar styttri gönguleiðir m.a. með sjávarsíðunni.

Í Djúpavogshreppi er góður 9 holu golfvöllur staðsettur að Hamri í Hamarsfirði sem er í c.a. 10 mín akstursfjarlægð frá Djúpavogi. Árið 2002 var reist ný og glæsileg innisundlaug á Djúpavogi sem hefur notið mikillar hylli ferðamanna, laugin er vel búin í alla staði með setlaug í sundlaugargarði sem er vinsæl á sólríkum dögum.

Þjónusta er almennt mjög góð í þéttbýlinu á Djúpavogi og er því staðurinn tilvalinn fyrir ferðamenn til að stoppa á og njóta alls þess sem í boði er.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0