Fjallabak - syðra

Emstrur á Laugaveginum

Fjallabak – syðra

Ein vinsælasta gönguleiðin á Íslandi, Laugavegurinn úr Landmannalaugum í Þórsmörk, 54 km löng ganga í sunnanverðu hálendi Íslands. Leiðin er ótrúlega fjölbreytt, bæði í gróðufari og fjölbreytileika. Fyrsta skráða ferðin var farin af Ferðafélagi Íslands haustið 1978, síðan hafa tugir þúsunda farið þessa fjögurra daga göngu með Ferðafélaginu, eða á eigin vegum. Leiðin er einnig hlaupin, en á hverju sumri fer fram Laugavegshlaupið, en besta tímann á Þorbergur Ingi Jónsson, 3:59:13. Í ár fer hlaupið fram þann 16 júlí. Ferðafélag Íslands rekur fjóra skála á leiðinni, þar sem fólk getur áð og gist, fyrsti skálinn er í Hrafntinnuskeri, á hæsta punkti leiðarinnar í rétt rúmlega 1000 metra hæð, næsti er við Álftavatn, síðan í Hvanngili og Emstrum. Síðan eru stórir skálar á upphafs og lokastöðunum, í Landmannalaugum og í Þórsmörk. Land og Saga / Icelandic Times, sýnir ykkur hér svipmyndir úr Emstrum, þriðja hluta gönguleiðarinnar. Þarna er gengið fram hjá einu stærsta gljúfri á Íslandi, Markarfljótsgljúfri sem myndaðist í einu hamfarahlaupi fyrir 2500 árum. Miklu meiri gróður var í Emstrum fyrir gosið í Kötlu árið 1918, sem setti svæðið meira minna í kaf í ösku. En það er örstutt úr Emstrum að Mýrdalsjökli, þar sem eldfjallið Katla, sefur… í bili.

Fjallabak – syðra
Fjallabak – syðra
Fjallabak – syðra

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson