Það eru fáir staðir á Íslandi sem skáka upplifunina að heimsækja Reynisfjöru.

Fallegasta fjaran?

Reynisfjara, rétt vestan við Vík í Mýrdal er einn vinsælasti ferðamannastaður Íslands, og ekki að ósekju. Kolsvört ströndin þakin smásteinum, og ólgandi Atlantshafið með sínum stóru taktföstu úthafsöldum mynda stemmingu sem eiga fáa sína líka. Enda hefur Reynisfjara verið ofarlega á listum yfir fallegustu fjörur veraldar í mörg herrans ár. En fjaran getur verið varasöm, útfallið er svo sterkt að jafnvel bestu sundmenn ná ekki landi ef þeir slysast í öldurótið. Í Reynisfjalli í fjörunni eru einstaklega fallegar stuðlabergsmyndanir, og Hálsanefshellir, sem hægt er að kíkja inn í á fjöru. Rétt utan við Reynisfjöru eru Reynisdrangar, bergdrangar sem rísa 66 metra upp yfir sjávarmál. Það eru 190 km / 112 mi frá Reykjavík í Reynisfjöru, beygt er af Hringvegi 1, rétt vestan við Vík, veg 215, og frá bílastæðinu neðst í Reynishverfi tekur aðeins fimm mín að skokka niður í fjöruna.

Vestur-Skaftafellssýsla 14/08/2021  09:41 : RX1R II 2.0/35mm
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0