Fimmtíu ár liðin frá mannskaðaveðri í Ísafjarðardjúpi
Fimmtíu ár eru nú liðin frá sjóslysunum miklu í Ísafjarðardjúpi í byrjun febrúar 1968. Þá fórust 26 sjómenn af tveimur breskum togurum og einum íslenskum vélbáti. Af því tilefni verður haldin athöfn um borð í varðskipinu Óðni til minningar um þá sem týndu lífi þennan örlagaríka dag og jafnframt til að minnast þess björgunarafreks sem áhöfnin á Óðni vann. Athöfnin hefst kl. 16:00 mánudaginn, 5. febrúar 2018
Þeir sem fórust voru sex manna áhöfn Heiðrúnar II frá Bolungarvík og 19 manna áhöfn breska togarans Ross Cleveland, fyrir utan einn mann sem bjargaðist við illan leik. Togarinn Notts County strandaði sama dag á Snæfjallaströnd, en áhöfn Óðins vann hetjudáð þegar hún bjargaði skipverjum þess en einn þeirra var þegar látinn er Óðinn komst á slysstað. Vegna aðkomu áhafnar Óðins, með Sigurð Árnason skipherra í fararbroddi, var 18 mannslífum bjargað þennan dag.
Minningarathöfnin fer fram í þyrluskýli Óðins þar sem sr. Hjálmar Jónsson mun fara með minningarorð en Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi, mun jafnframt ávarpa samkomuna. Í kjölfarið verður boðið upp á kaffiveitingar í messa skipsins. Þar mun Gylfi Geirsson, formaður Öldungaráðs Landhelgisgæslunnar og fyrrverandi starfsmaður hennar, fjalla um björgunarafrekið sem áhöfn Óðins vann.
Varðskipið Óðinn liggur við festar við Sjóminjasafnið í Reykjavík við Grandagarð 8 og hefur tilheyrt safninu síðan 2008.