Einstakur viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara
Japanski fjöllistamaðurinn Mushimaru Fujieda fremur gjörning ásamt rokksveitinni Fufanu á KEX á morgun, miðvikudaginn 13. júlí. Gjörningurinn hefst klukkan 20:00 í Gym & Tonic.
Mushimaru Fujieda (f. 1952, Japan) er dansari, leikstjóri og danshöfundur og er þekktur Butoh dansari. Hann hóf feril sinn með leikhópnum Ishinha árið 1972. Árið 1989 starfaði hann með Beat-skáldinu Allen Ginsberg í New York og í kjölfarið af því tækifæri hóf hann að kalla sig Náttúrulegt, líkamlegt skáld (e. Natural Physical Poet). List hans þróaðist í kringum sóló-dans þar sem hann tjáir tilfinningaþrungin augnablik í lífinu, á táknrænan hátt, líkt og hluta ljóðs, og skapaði spennu og ljóðrænu. Hann fæst einnig við grímu-dans fyrir Himalaya trúarathafnir; samvinnu í leiksýningum með tónlistarmönnum og skáldum. Hann hefur performerað og starfað með listamönnum allra listgreina og hefur haldið námskeið í yfir 20 löndum. Ásamt þremur börnum sínum stýrir Fujieda danshópunum The Physical Poets og Arakan Family. Hann lifir sjálfbæru lífi á Yakushima eyju, þar sem er forn skógur, og ferðast þaðan vegna listar sinnar, um allan heim.
Mushimaru Fujieda hefur starfað sem leikari, rithöfundur, leikstjóri, framleiðandi, handritshöfundur og dansari, á alþjóðavettvangi, síðan 1972. Verk hans hafa birst í sjónvarpsþáttum og í útvarpi. Hann hefur ferðast víða með list sína og komið fram í listastofnunum, list-tvíæringum og listahátíðum um heim allan, svo sem í Bandaríkjunum, Japan, Suður-Kóreu, Kína, Taívan, Indlandi, Mexíkó, Grikklandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Englandi, Eistlandi og á Norðurlöndunum.
Fufanu er rokkhljómsveit úr Reykjavík sem er leidd af þeim Kaktusi og Guðlaugi Halldóri Einarssyni. Few More Days To Go er fyrsta skífa Fufanu í fullri lengd og kom hún út á vegum Smekkleysu SM hér á landi, útgáfufélagið One Little Indian gaf skífuna út á erlendri grundu. Breiðskífan hlaut glimrandi viðtökur meðal tónlistarskríbenta og komst hún á m.a. lista yfir bestu plötur ársins hjá The Line of Best Fit, NME og Guardian. Bandaríska útvarpsstöðin KEXP hefur einnig miklar mætur af sveitinni og hefur boðið henni tvívegis í upptökur hjá sér.