Jólastund í Bókahorninu næstkomandi sunnudag kl. 13:00

Rithöfundar lesa úr verkum sínum og jólasveinar skemmta og syngja

Yndisleg fjölskylduskemmtun á KEXinu þar sem lesið verður uppúr nýjum barnabókum eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur, Ástu Rún Valgerðardóttir og Láru Garðarsdóttur.  Einnig munu jólasveinarnir skemmta og syngja.

Um Fjölskylduna mína

Friðjón er fimm ára leikskólastrákur sem veit fátt skemmtilegra en að leika sér við vini sína. Dag einn er haldinn fjölskyldudagur og þá komast krakkarnir að því hversu fjölbreyttar fjölskyldur þeirra eru. Til að mynda á Friðjón tvær mömmur, sumir eiga stjúpforeldra, aðrir tala annað tungumál við foreldra sína og svo mætti lengi telja.

Fjölskyldan mín er skemmtileg bók sem opnar umræðu um ólík fjölskylduform og fagnar fjölbreytileikanum. Fjölskyldan mín er fyrsta bók Ástu Rúnar Valgerðardóttur, sálfræðings. Lára Garðarsdóttir, handhafi barnabókaverðlauna IBBY, er höfundur mynda. 

Markmiðið með útgáfu bókarinnar er að fagna þeim fjölbreytileika sem finna má í fjölskyldum nútímans og fræða börn um ólík fjölskylduform í gegnum skemmtilega og lifandi sögu sem gerist í umhverfi sem börnin þekkja. Bókin opnar umræðu á milli barna og foreldra um lífið og tilveruna á leikskólanum og heima fyrir. Efnið er Ástu Rún afar hugleikið en hún er gift konu og þær eiga saman son á leikskólaaldri.

Um Lukku og hugmyndavélina

Lukka ætlar að njóta síðustu daga sumarfrísins, liggja í leti og lesa á milli þess sem hún grúskar í uppfinningunum sínum. Foreldrar hennar eru að rannsaka skipsflak á hafsbotninum úti fyrir hinni afskekktu Fiskey. Lukka, Jónsi og Sámur eru með í för og að sjálfsögðu hugmyndavélin, en Lukka fer ekkert án hennar.

Það kemur þó fljótt í ljós að íbúar eyjunnar eru ekki allir þar sem þeir eru séðir og systkinin dragast inn í óvænta atburðarás þar sem reynir á styrk þeirra sem aldrei fyrr.

Hér er á ferðinni önnur bókin um Lukku og ævintýrin sem hún og fólkið í kringum hana lendir í. Bókin er ríkulega myndskreytt með svarthvítum myndum eftir Loga Jes Kristjánsson.

Allir velkomnir – Enginn aðgangseyrir.