Fólkið í landinu nýtur forgangs um nýtingu orkunnar

“Fólkið í landinu þarf að finna á eigin skinni að það nýtur forgangs um nýtingu orkunnar.” Segir Halla Hrund, orkumálastjóri.

Nýr orkumálastjóri Halla Hrund Logadóttir brennur af þrá til starfa fyrir Ísland, Norðurslóðir og veröldina í öllum sínum fjölbreytileika á hinum miklu tímamótum orkuskipta. Hún er fertug fædd 1981, lærði til verka hjá afa og ömmu í Hörglandskoti á Síðu Kirkjubæjarklaustri. Hún tók þann sveitaskóla í námið í Reykjavík og útskrifaðist frá Kvennaskólanum 2001 og BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2005. Halla Hrund hélt utan til starfa í sendiráði Íslands í Brussel. Árið 2009 fór hún  til Togó í V-Afríku, þá til starfa hjá OECD í París Frakklandi, nam hagfræði og alþjóðasamvinnu við London School of Economics á Englandi. Kom heim 2013 til starfa við Háskólann í Reykjavík til að ýta úr vör Iceland School of Energy. Þá var Arctic Circle Assembly ráðstefnan að opna nýja sýn svo Halla Hrund fór vestur yfir haf í meistaranám við sjálfan Harvard í Boston Massachusetts þar sem hún mótaði Arctic Initiative sem beinir sjónum sínum að loftlagsbreytingum á heimskautasvæðum Norðurslóða.

Halla ásamt forseta Íslands í Havard Kennedy Skólanum í tengslum við viðburði Arctic Initiative

„Hlýnun heimskautasvæða knýr dyra af vaxandi þunga. Áhrif hlýnandi veðurfars á fólk og lífríki fer stigvaxandi,“ segir Halla Hrund í samtali við Icelandic Times. Hún er gift Kristjáni Frey Kristjánssyni framkvæmdastjóra og eiga þau dótturina Hildi Kristínu. Hún tók við lyklavöldum Orkustofnunar í júní 2021 og fyrstu mánuðir í starfi hafa beinst að mótun framtíðarsýnar og nýju skipuriti.

 

Hörglandskot á Síðu

Halla Hrund er dóttir Loga Ragnarssonar [1960] og Jóhönnu Steingrímsdóttur [1961]. Hún var í sveit nánast öll sumur fram til tvítugs hjá afa og ömmu í Hörglandskoti á Síðu skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Steingrímur Lárusson [1933-2014] og Anna Hildur Árnadóttir [1938-2018] ráku myndar verðlaunabú þó kennt væri við kot, afi Steingrímur annálaður höfðingi; hreppstjóri í Hörglandshreppi og gegnheill sjálfstæðismaður.

„Það var nóg að starfa í sveitinni þar sem náttúruvitund dýpkaði með hestum, kúm, sauðfé og heyskap og verkvit þroskaðist við að koma uppskeru í hlöðu,“ segir Halla Hrund. Eftir útskriftina frá Háskóla Íslands árið 2005, var Halla Hrund þrjú ár í sendiráði Íslands í Brussel við kynningu á íslenskri list og menningu. Þaðan fór hún til starfa í Tógó í V-Afríku til að kenna og hjálpa bændum. „Þá jókst skilningur minn á mikilvægi innviða. Það var viðvarandi rafmagnsleysi og myrkur í Tógó fyrrum frönsku nýlendunni en innviðir þróaðir þegar farið var yfir landamærin til Ghana sem á nýlendutímanum var undir stjórn Breta.“

„Sveitin opnaði vitund mína um mikilvægi náttúruverndar og orkumála, Tógó mikilvægi innviða til þróunar samfélags,“ segir hún. Hún bendir á uppbyggingu innviða Íslands, virkjun Elliðaáa 1921 og Hitaveitu Reykvíkur, upphitun Austurbæjarskóla og  nágrennis 1930 með heitu vatni frá Þvottalaugunum í Laugardal. Forfeður okkar lyftu grettistaki með virkjun Elliðaáa og síðar Búrfells og nýtingu jarðvarma þegar Ísland var eitt fátækasta land álfunnar en við aldarlok í fremstu röð í heiminum.

Umræður og kennsla með Ban Ki-moon

Alþjóðaþróun & Arctic Initiative

Þegar Halla Hrund flutti heim að loknu hagfræðináminu í Lundúnum og hóf að stýra alþjóðaþróun Háskólans í Reykjavík árið 2013 með stofnun Iceland School of Energy, var Ólafur Ragnar Grímsson forseti [1996-2016] að hleypa af stokkunum Arctic Circle Assembly ráðstefnunni. Ísland varð suðupottur samskipta og hugmynda þar sem þjóðarleiðtogar, vísindamenn og áhrifavaldar koma saman. Halla Hrund greip boltann á lofti og fléttaði heimskautasvæði Norðurslóða saman við loftlagsmál, orkunýtingu og náttúruvernd. Það var að sönnu byrjað smátt og fyrsta árið voru fjórir nemendur við Iceland School of Energy og myndir af þeim í öllum í kynningarbæklingi.

Heimsbyggðin gerir sér ekki nægjanlega grein fyrir alvarleika breytinga fram undan og sérstaklega vantaði að fá stærri leikendur á sviðið þannig að rödd Norðurslóða heyrðist hátt og skýrt, segir Halla. Henni var boðinn fellowship-styrkur til að stunda meistaranám við Harvard háskóla þar sem tíminn var nýttur til að stofna Arctic Initiative við hið mikla menntasetur í Massachusetts. Fyrsta námskeiðinu um nýsköpun Norðurslóða var hleypt af stokkunum 2018 þar sem Halla Hrund kenndi ásamt dr. John Holdren, vísindaráðgjafa Baracks Obama forseta Bandaríkjanna [2008-2016]. Eric Schmidt forstjóri og stofnandi Google [2001-2017] kom til liðs, heimsþekktur á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Sjóður hans fjármagnar nýsköpunarvinnu Arctic Initiative og er lykilstuðningsaðili Arctic Circle Assembly.

„Samvinna er lykill að árangri, ekki stærð. Ekkert eitt ríki, fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag getur leyst áskoranir okkar samtíma á sviði umhverfismála, en ef við vinnum öll saman þá má gera stórkostlega hluti,“ segir Halla Hrund. Meðal fyrirlesara í Boston má nefna Ban-Ki-moon fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Framtíðin er græn

Nú á þriðja áratug 21. aldar eru nýjar áskoranir og tækifæri sem íslenska ríkisstjórnin umvefur. Halla Hrund fagnar því. „Framtíðin er græn. Afi beið óþreyjufullur eftir póstinum sem barst með mjólkurbílnum. Nú berast upplýsingar með ljóshraða,“ segir Halla Hrund. Ísland standi frammi fyrir stórbrotnu tækifæri og áskorunin sé risavaxin. Heildarstefna hafi aldrei verið mörkuð um samræmingu loftlags, orku og umhverfismála, hvorki hér né annars staðar. Árið 1969 bergmáluðu orð Neils Armstrong frá tunglinu um heimsbyggðina: ‘Eitt lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkyn.‘

Bandaríkin voru fyrst til að senda mann til tunglsins eftir mikið kapphlaup við Rússa. Það markaði tímamót í sögu mannkyns. Enn er mannkyn á tímamótum. „Við erum að taka risastökk. Ríkisstjórnin horfir til loftlagsmála í metnaðarfullri stefnu um orkuskipti. Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur sett þessi mál í forgang í stjórnarsáttmála og sameinað ráðneyti orku, loftslags og umhverfismála.  Við Íslendingar eigum tækifæri til að verða fyrstir þjóða til þess að verða algerlega umhverfisvænir. Við setjum fordæmi fyrir heimsbyggðina með því að brúa þessi 15% sem upp á vantar. Tenging orkuöflunar við náttúruvernd og loftlagsmál er einstakt tækifæri. Tækninýjungar koma á ljóshraða og mikilvægt að vera vakandi fyrir breytingum og vanda sig.

Orkustofnun þjónar fólkinu í landinu og við viljum vanda okkur við mótun hinnar nýju stefnu, ramma og eftirlit,“ segir Halla Hrund og bætir við: „Það er mikilvægt að segja upphátt: Stefna Íslands er að nýta og vernda land og náttúru. Orka fallvatna og jarðvarma er dýrmæt. Við viljum vera með grænustu ferðaþjónustu í heimi, tengja landbúnað og jarðyrkju við okkar grænu orku. Eftirspurn er endalaus og þarf að skilgreina með almenning í forgangi. Fólkið í landinu þarf að sjá afrakstur verka okkar og finna á eigin skinni að það nýtur forgangs um nýtingu orkunnar.“

Halla Hrund gengur jafnan til vinnu á Grensásvegi frá heimili sínu eftir hitaveitustokknum. Á þessum tímamótum nýrra tíma kveðst henni hugsað til baka hundrað ár aftur í tímann þegar Ísland hafði öðlast fullveldi og ómenntuð þjóðin hafið uppbyggingu auðlinda sinna, virkjun fallvatna og jarðvarma og nýtingu fengsælustu fiskimiða heims. „Þjóðin hafði allt að vinna og tók risaskref án þess að vita allt. Það ætti að vera vel menntaðri þjóð auðvelt nú 100 árum síðar,“ segir hún. Þetta er okkar kaffibolli

Vegferð Höllu Hrundar hefur ekki verið ósvipuð þroskasögu íslenskrar þjóðar. Á barnsaldri lærði hún til verka hjá afa og ömmu. Hún upplifði gleði sveitarinnar og lærði til verka, sem urðu hennar veganesti í höfðuborginni þegar hún gekk menntaveginn, hélt út í hinn stóra heim til mennta og er komin heim til starfa í þágu Íslands, eins og hún segir. Fyrir átta árum var Iceland School of Energy hleypt at stokkunum með fjóra nemendur, nú eru þeir 600 sem fókusera á heimskautasvæði Norðurslóða þar sem hnattræn hlýnun er meir en tvisvar sinnum hraðari en í metrópólum veraldar og Arctic Initiative hefur vaxið og dafnað.

„Stórfelldar breytingar á vistkerfum, súrnun sjávar, afkoma og velferð íbúa og dýra, öryggismál Norðurslóða. Allt er þetta aðkallandi vandi. Við erum í kapphlaupi við tímann. Þetta er okkar kaffibolli og við bjóðum ekki afkomendum okkar upp á sull,“ segir Halla Hrund Logadóttir.