Frá daufum eyrum borgarfulltrúa til áhugasamra ferðamanna

Landsmenn, sem og erlendir ferðamenn hafa ekki farið varhluta af eldsumbrotunum á Reykjanesi undanfarin fjögur ár. Meðal þeirra sem höfðu ljáð máls á hættunni á eldgosi nærri byggð, löngu áður en eldarnir hó fust í mars 2021, er Dofri Hermannsson. Þá var hann varaborgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg – í dag fer hann með ferðamenn í skoðunarferðir um nýtt hraun.
„Ég byrjaði á þessu af því ég var að aðstoða Kormák bróður minn sem var með hellaferðir að Leiðarenda við Bláfjöll, og það kom fyrir að með í för var fólk sem þorði bara alls ekki inn í helli. Hann baði mig því að fara með fólkið eitthvert annað og þar sem ég þekkti vel fjöllin þar í kring, á Krýsuvíkursvæðinu og annars staðar í nágrenni Reykjavíkur, og þar fór ég að segja fólkinu frá mögulegu eldgosi.“

Sá hraun renna niður Elliðaárdalinn

Aðspurður um hvernig kunnugleiki hans á umræddu svæði hafi komið til útskýrir Dofri að þegar hann hafi „álpast“ í pólitík á árunum 2006 til 2010, sem varaborgarfulltrúi fyrir Samfylkinguna í borgarstjórn Reykjavíkur, hafi skyggn maður sem hann þekkti komið að máli við hann. Sá hafði þungar áhyggjur af því að hraun gæti tekið upp á því að renna niður Elliðaárdalinn í kjölfar þess að hafa ítrekað fengið sýnir sem boðuðu slíkan atburð. Þessar ábendingar urðu Dofra að umhugsunarefni enda vissi umræddur einstaklingur oft hvað verða vildi, nokkuð sem erfitt var að útskýra.
„Ég hafði ekki spáð mikið í jarðfræði á þeim tíma, varð hissa á þessu tali og ekki viss um að slíkt væri einu sinni mögulegt,“ segir Dofri. En athygli hans var vakin. „Ég fór af stað og ræddi við okkar virtustu jarðfræðinga á þeim tíma og spurði þá hreint út, getur hraun runnið niður Elliðaárdalinn? Þeir svöruðu allir að á einhverjum tímapunkti myndi slíkt eiga sér stað; það væri bara spurning um tíma. Síðast hefði slíkt gerst fyrir um 4600 árum síðan. Ég spurði þá á móti hvort þeir vissu til þess að einhverjar neyðaráætlanir væru til staðar til að bregðast við slíkri sviðsmynd. Þeir svöruðu því til að þeir héldu nú ekki. Það hefði almennt verið mjög lítill áhugi á því að skoða af einhverri alvöru þessa eldgosahættu á höfuðborgarsvæðinu. Þeir bættu við að þetta væri auðvitað hvorki alvarlegasta né líklegasta sviðsmyndin. Einn þeirra sagðist furða sig á því hvernig Vallarhverfið komst í gegnum skipulag, byggð á lægsta stað í líklegasta farvegi fyrir næsta hraunrennsli, þar sem búast má við hrauni á minnst þúsund ára fresti og nú eru tæp 900 ár frá síðasta hraunrennsli.“

Eins og fulli frændinn í fermingarveislunni

Á þeim tíma er Dofri semsé í pólitík – enn fjarri því að vera kominn í ferðaþjónustu af neinu tagi – og reyndi hann tvisvar að ljá máls á málinu úr ræðustól í borgarstjórn. Það var að hans sögn mjög skrýtin reynsla. „Líklega hélt fólk ég væri þarna að vekja á mér athygli fyrir prófkjör sem yrði tveimur árum síðar. „Reynslan af því að standa í ræðustól og tala um að Reykjavíkurborg yrði að hafa tiltækar áætlanir ef til eldgoss kæmi, og upplifa þá að það sé horft á mann eins og maður sé fulli frændinn í fermingarveislunni, það var skrýtið. En það auðvitað dýpkaði skilning manns á því hvernig pólitík virkar.“ Um leið dýpkaði líka áhugi Dofra á jarðfræði svæðisins umhverfis höfuðborgina, enda segist hann í aðra röndina svolítill dellukarl. Þegar jarðaskjálftahrinur gengu yfir sló hann oft á þráðinn til Sigmundar Einarssonar jarðfræðings, til að spyrja hvort hann teldi komið að gosi. Um leið gekk Dofri mikið um svæðið ásamt því að lesa sér til. Fyrr en varði var hann orðinn hafsjór af uppsöfnuðum fróðleik um aðgengilega staði ásamt ógrynni af skemmtilegum sögum. Það blasti því við að hann tæki, eins og framar greindi, við ferðafólki því sem veigraði sér við að fara í hellaskoðun og kaus þess í stað að spóka sig ofan jarðar.

Tilgátuferðir um virkar eldstöðvar

Dofri stofnaði leiðsögufyrirtæki sitt, Reykjavik Erupts, árið 2017. „Úr þessu varð svo efniviðurinn í tilgátuferðir sem ég hef svo sett saman fyrir ferðamenn um Reykjanesið, sem ég sýni þeim hvar hefur gosið, hvar gaus nýlega og hvar getur gosið þá og þegar,“ útskýrir Dofri. „Ferðamönnum þykir afskaplega áhugavert að sjá 3000 ára gamalt hraun, þúsund ára gamalt hraun, og svo tveggja til þriggja ára hraun. Þegar ég bæti því svo við að hérlendir fræðimenn á sviði jarðfræðinnar segi að það geti þessvegna gosið í næstu viku þá lifnar þetta við. Það er betra ef maður getur sagt frá jarðfræðinni á einfaldan hátt fyrir leikmenn, jafnvel börn, svo viðfangsefnið sé lifandi.“
Áhuginn lætur ekki á sér standa erlendis frá og aðspurður um hvort fyrirtæki hans hafi fundið fyrir samdrætti eins og talsmenn ferðaþjónustunnar á Íslandi hafa varað við á þessu ári, þá segist Dofri ekki geta kvartað; árið í ár sé ekki verra en undanfarin ár. Þar spilar sjálfsagt inn í að vandað er til verka. Reykjavik Erupts fékk í vor verðlaunin Travel & Hospitality Award fyrir „Unwavering commitment to excellence and exceptional service” og nýlega fékk fyrirtækið svo senda viðurkenningu frá TripAdvisor sem setur það í topp 10% fyrirtækja í heiminum. „Það hefur aldrei verið stefnan að stækka mikið en aðalfókusinn þess í stað á að hafa gaman af þessu og vanda sig,“ segir Dofri. „Setningin sem ég bið alla að hafa á bak við eyrað sem vinna fyrir mig hefur verið þessi: Taktu á móti öllum eins og þeir væru gamla skiptinemafjölskyldan þín, loksins að koma til að hitta þig og sjá landið þitt.“

Óhætt er að segja að það hafi reynst Dofra farsælt að breyta um áheyrendur, frá frá daufum eyrum borgarfulltrúa til áhugasamra ferðamanna. Viðlíka tilgátuferðir hefur fyrirtækið svo í framhaldinu boðið upp á um Heklu, Kötlu og Snæfellsjökul – allt eldstöðvar sem hafa gosið, geta gosið og munu gjósa aftur.

Gæti gerst á morgun, eins og jarðfræðingarnir segja.

Texti: Jón Agnar Ólason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0