Á Frakkastígsreit eru í byggingu 67 litlar og meðalstórar íbúðir sem munu tengjast skjólgóðum, lokuðum garði en á götuhæðum bygginganna, sem snúa að Laugavegi, Frakkastíg og Hverfisgötu verða verslanir, veitingahús og þjónusta. Íbúðirnar eru 55-170 m2 að stærð og heildarverklok eru áætluð í maí 2018.
Framkvæmdir hófust haustið 2014 og nýlega lauk innréttingu 24 íbúða við Hverfisgötu og í inngarði reitsins. Þær voru tilbúnar fyrir áramótin 2017/2018. Uppsteypu við Frakkastíg lauk í nóvember 2017 og fyrstu íbúðirnar af þeim 43 íbúðum sem þar voru byggðar voru afhentar í febrúar 2018.
Hulda Þorsteinsdóttir hjá Blómaþingi ehf., sem er framkvæmdaaðili á Frakkastígsreitnum, segir að svæðið henti vel þeim sem vilji vera í hringiðu miðborgarinnar. „Þetta er mjög vel staðsettur reitur með skemmtilegum og góðum íbúðum fyrir fólk sem vill búa miðsvæðis. Svo er hérna garður sem verður bara til afnota fyrir íbúa, sem eru ákveðin lífsgæði.“