Breiðafjörður er víðáttumikill og grunnur flói við vesturströnd Íslands. Þar er mesta grunnsævis- og fjörusvæði landsins og er þar að finna auðugt lífríki ofan sjávar og neðan. Þar eru meiri sjávarföll og fallastraumar en annars staðar á landinu og er talið að um fjórðungur af öllum fjörum landsins séu við Breiðafjörð. Í firðinum er meiri fjölbreytileiki botndýralífs en mælst hefur annars staðar við Ísland. Eyjarnar í Breiðafirði eru óteljandi segir þjóðtrúin, en talið er að þær séu um 2500 talsins. Breiðafjörður var mikil matarkista forðum og búið í fjölmörgum eyjum. Nú eru þær farnar í eyði, aðeins er föst búseta í tveimur, en húsum er víða haldið við og þau brúkuð sem sumarhús.
Fuglalíf Breiðafjarðar er einstakt og er það eitt hið þýðingarmesta á landinu og á Norður-Atlantshafi öllu. Breiðafjörður nýtur verndar skv. lögum, jafnframt því að vera á skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna BirdLife International yfir Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (Important Bird Areas, IBA). Útvörður Breiðafjarðar í norðri og vestri er Látrabjarg, stærsta fuglabjarg N-Atlantshafs.
Náttúran einkennist af fuglum sem eiga allt sitt undir lífríki sjávar og verpa margir í stórum byggðum. Jafnframt eru fjörur Breiðafjarðar mikilvægur viðkomustaður fargesta á leið til og frá vetrarstöðvum austan hafs og varpstöðvum í Grænlandi og Íshafseyjum Kanada. Ástæðan fyrir þessu auðuga fuglalífi er gnótt fæðu, sem byggir á samspili landslags, mikilla sjávarfalla og frjósemi sjávar.
Sem dæmi um mikilvægi Breiðafjarðar fyrir fugla má nefna að um tveir þriðju hlutar íslenska hafarnarstofnsins og meginþorri dílaskarfa og toppskarfa verpa við fjörðinn. Langstærsta álkubyggð heims er í Látrabjargi, auk þess sem um þriðjungur æðarstofnsins er við Breiðafjörð. Stærstu hvítmáfsvörp landsins eru við Breiðafjörð og þar eru jafnframt miklar byggðir fýls, ritu og kríu. Þá fara stórir hlutar af heimsstofnum margæsar, rauðbrystings og tildru um fjörur Breiðafjarðar að vori og hausti.
Haförn er nefndur konungur íslenskra fugla. Þessi tígulegi ránfugl var næstum útdauður um 1960, en Fuglaverndarfélagi Íslands (BirdLife Iceland) tókst að bjarga stofninum með baráttu sinni gegn þröngsýni og afdalahætti. Þegar stofninn stóð sem tæpast hélt hann velli í Breiðafirði, sem var og er hans helsta búsvæði á landinu. Nú verpa ernir fyrst og fremst í eyjum og hólmum og lágum nesjum og klettsnösum, en þegar örninn var í lægð varp hann talsvert í bröttum, ókleifum fjallshlíðum. Örninn er alfriðaður og má ekki nálgast hreiður hans nema með leyfi Umhverfisráðuneytisins. Fyrirtækið Sæferðir sem siglir frá Stykkishólmi hefur leyfi til að sigla nærri arnarhreiðri og sýna ferðamönnum þennan mikilúðlega fugl.
Lundi er einn algengasti varpfuglinn í Breiðafirði. Hann verpur í þéttum byggðum í grasi vöxnum eyjum, sem nóg er af á firðinum. Hann kafar eftir fiski og sést oft á flugi að áliðnu sumri með síli fyrir ungann. Lundinn er afar vinsæll hjá ferðamönnum og gott að skoða hann í firðinum.
Flóabáturinn Baldur hefur viðkomu í Flatey á ferðum sínum milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Hægt er að eyða þar dagstund milli ferða eða lengri tíma ef vill. Fuglalíf Flateyjar er sérstakt og fjölbreytt og vel þess virði að gefa því gaum, enda eru margir fuglar óvenju spakir í eynni. Teistan er áberandi meðfram strönd Flateyjar, kolsvört með hvíta vængreiti, rauða fætur og rautt kok. Aðalfæða hennar er sprettfiskur sem hún veiðir í þanginu við ströndina. Nokkuð er af lunda undir Lundabergi og í eyjunum umhverfis Flatey. Aðrir áberandi sjófuglar eru toppskarfur, fýll, rita og æðarfugl. Sólskríkjan syngur sinn angurværa söng af húsþökum eða bjargnibbum. Óðinshani hringsnýst og skrifar á flestum tjörnum og pollum, en hann sést líka á sjónum og ekki er útilokað að frændi hans þórshaninn stingi upp kollinum í fjörunni. Stelkur kallar af flestum staurum, hrossagaukur hneggjar úr loftinu og krían gerir steypiárás á óvelkomna gesti í varpinu.
Ekki er hægt að fjalla um fugla Breiðafjarðar, án þess að nefna Látrabjarg, þó það sé ekki innan þess svæðis sem lög um verndun Breiðafjarðar ná yfir og það er jafnframt annað IBA svæði. Þetta stærsta fuglabjarg í N-Atlantshafi fóstrar hundruð þúsunda sjófugla: fýl, ritu, álku, langvíu, stuttnefju og lunda. Hvergi í heiminum er betra að ljósmynda lunda en við Bjargtanga, hann er svo spakur þar á kvöldin að næstum er hægt að snerta hann og hvergi annars staðar er hægt að taka portrettmynd af honum með víðhornslinsu ern þar!
Gleðilega fuglaskoðun!
Texti og myndir Jóhann Óli Hilmarsson