Grænt og grösugt undir Eyjafjöllum

Austast í Rangárvallasýslu, frá Markarfljóti í vestri, austur að Jökulsá á Sólheimasandi eru Eyjafjöllin. Þessi móbergsfjöll eru svo fallega græn, og fyrir ofan þau er hvítur hjálmur Eyjafjallajökuls. Ein fallegasta sveit landsins, og ekki spillir veðurfarið fyrir, þarna grænkar fyrr á vorin, en í flestum sveitum landsins. Enda er svæðið eitt það syðsta á Íslandi. Frá Reykjavík er rúmlega eins og hálftíma akstur eftir suðurlandsundirlendinu, að Seljalandsfossi, sem blasir við frá Hringvegi 1, austur. Nafngiftin Eyjafjöll, kemur af því að fjöllin blasa svo fallega við frá Vestmannaeyjum, enda hefur verið mikill samgangur milli lands og eyja í gegnum aldirnar. Svæðið er eitt það eldvirkasta á landinu, síðast gaus Eyjafjallajökull miklu öskugosi, vorið 2010. Jökullinn er sá fimmti stærsti á landinu. Eitt af betri söfnum landsins, Skógasafn, stofnað 1949 og sýnir menningararf og atvinnulíf, í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu fyrr á öldum. Safnið er rétt austan við Skógafoss. Þaðan liggur ein af fjölförnustu gönguleiðum landsins yfir Fimmvörðuháls, milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls niður í Þórsmörk. 

Stórbýlið Þorvaldseyri, Eyjafjallajökull í bakgrunni
Lúpínuakur á Skógasandi, um sumarnótt
Nautgripir á beit Undir Eyjafjöllum
Fossinn Gljúfrabúi, í næsta nágrenni við Seljalandsfoss

 

Seljalandsfoss
Ótal mynstur eru í Eyjafjöllunum, sem eru úr móbergi að mestu
Horft í austur að Eyjaföllunum í miðnæturbirtu

Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson
Eyjafjöll 14/06/2023 : A7RIII, A7C, RX1R II : FE 2.8/100mm GM, FE 1.8/20mm G, FE 1.2/50mm GM, FE 1.4/24mm GM, FE 2.8/90mm G