Guðrún Eva Mínervudóttir: Aðferðir til að lifa af. Skáldsaga. Bjartur, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.
Söguheimurinn sem Guðrún Eva Mínervudóttir dregur upp fyrir lesanda í Aðferðum til að lifa af er kyrrlátur en á sama tíma þrunginn lífi eins og síðsumarið sjálft; í honum streða hundar í taumi á meðan værðin leggst yfir þorpið. Á sama hátt kraumar mennskan í persónunum sem höfundur teflir fram á sjónarsviðið. Unglingsstúlka glímir við átröskun, við tilfinningar sem ólmast í brjóstinu; fyrrum dugnaðarforkur á miðjum aldri er nýorðinn öryrki og haltrar á vit óljósrar framtíðar; ekkju líður eins og fullum poka af glerbrotum og vansæll drengur vafrar um þorp þar sem flestir virðast vorkenna honum og óttast til jafns.
„Lífið rífur mann á hol og horfir samúðarfullt í augu manns á meðan,“ segir ein persóna Guðrúnar Evu í Aðferðum til að lifa af og það gerir bók hennar líka, ristir sár en fer á sama tíma um það mildum höndum. Þótt sorg og einangrun marki líf persónanna allra er það mildin og hjálpsemin sem stýrir þeim þótt brothætt sé; allavega um stund, allavega á meðan á lestri stendur.
Guðrún Eva sýnir hér á listilegan hátt þá miklu næmni sem hún býr yfir sem rithöfundur. Hún færir okkur heim hljóðlátan en ólgandi heim þar sem þrá eftir tengslum, sá djúpstæði kraftur, brýst upp á yfirborðið á ferskan hátt. Frásögnin tekur á sig blæ keðjusöngs, þar sem raddirnar kvikna ein af annarri, taka við laglínunni og fléttast saman um hríð svo úr verður sérlega áhrifamikið, margradda verk. Yfir öllu liggur værðarvoð öryggis, virðingar og djúps skilnings höfundar á þeim aðferðum sem maðurinn nýtir sér til að lifa af.
Guðrún Eva Mínervudóttir (f. 1976) er rithöfundur og ljóðskáld. Aðferðir til að lifa af er níunda skáldsaga hennar. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012 fyrir skáldsögu sína Allt með kossi vekur. Skáldsagan Fyrirlestur um hamingjuna var tilnefnd til sömu verðlauna árið 2000. Guðrún Eva hlaut Menningarverðlaun DV 2005 fyrir skáldsögu sína Yosoy.