Hádegistónleikar Hafnarborgar

Hádegistónleikar Hafnarborgar
Þriðjudag 4. apríl kl. 12

Þriðjudaginn 4. apríl kl. 12 mun sópransöngkonan Guðbjörg R. Tryggvadóttir koma fram á hádegistónleikum Hafnarborgar ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Tónleikarnir bera yfirskriftina Kossaflens en aríurnar sem fluttar verða eru meðal annars úr óperunum Romeo et Juliette eftir Charles Gounod, Giuditta og Cigányszerelem eftir Franz Lehar og Venus in Seide eftir Robert Stolz.

Guðbjörg R. Tryggvadóttir lauk burtfararprófi auk söngkennaraprófs frá Söngskólanum í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði Guðbjörg í Kaupmannahöfn hjá Prófessor André Orlowitz og síðar hér á Íslandi undir handleiðslu Kristjáns Jóhanssonar. Guðbjörg starfaði með Kór Íslensku Óperunnar frá 1994 til 2002 og tók þátt í flestum uppfærslum Íslensku Óperunnar á því tímabili. Guðbjörg hefur komið fram á tónleikum sem einsöngvari bæði hérlendis og erlendis og nú síðast í haust á vegum tónleikaraðarinnar „Á ljúfum nótum“ í Fríkirkjunni í Reykjavík ásamt Antoníu Hevesi.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.

Nánari upplýsingar hjá: Áslaugu Friðjónsdóttur, upplýsingafulltrúa Hafnarborgar, s. 585 5791
og Antoníu Hevesi, s. 864 2151.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0