Kirkjur Íslands: 30. bindi – Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarstönd

Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum.

Kirkjur Íslands eru vandaðar og glæsilegar bækur sem opna sýn inn í mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu. Til útgáfunnar var stofnað í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Í þessu bindi er fjallað um Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Ritstjórar: Þorsteinn Gunnarsson og Jón Torfason.

Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Hallgrímskirkja í Saurbæ (einnig þekkt sem Saurbæjarkirkja) er kirkja að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd í Hvalfjarðarsveit. Kirkjan er helguð minningu Hallgríms Péturssonar en hann var sóknarprestur í Saurbæjarprestakalli á árunum 1651 til 1669.

Guðjón Samúelsson teiknaði fyrstu gerð að kirkjunni og voru undirstöður steyptar eftir hans teikningu. Árið 1953 teiknuðu Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson nýja kirkju. Kirkjan er steinsteypt og klædd múrsteini að innan. Þakið er koparklætt. Turninn er 20 metra hár. Gerður Helgadóttir gerði glerlistaverk kirkjunnar en verk hennar eru sótt í Passíusálmana. Finnski listamaðurinn Lennart Segerstråle gerði fresku sem er í stað altaristöflu. Á altari er róðukross sem talinn er frá því um 1500. Róðukrossinn var í kirkju Hallgríms á 17. öld.

Hallgrímur Pétursson (1614 – 27. október 1674) var prestur og mesta sálmaskáld Íslendinga. Ævi hans var að mörgu leyti óvenjuleg en þekktastur er hann í dag fyrir Passíusálmana sína sem voru fyrst gefnir út á prenti árið 1666. Hann var af góðum ættum en bjó lengst af við fátækt. Hann naut mikils stuðnings Brynjólfs Sveinssonar og fékk prestsvígslu frá honum þrátt fyrir að Hallgrímur lyki aldrei formlega prófi. Hallgrímskirkja í Reykjavík og Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd eru nefndar eftir honum.