Það svífur ljúfur og þægilegur andi yfir Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit sunnan Akureyrar, eins og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, segir frá í spjalli. Engu að síður er drífandi vöxtur í samfélaginu á staðnum með aukinni þjónustu og metnaðarfullum áformum til framtíðar.
„Meiri tími með fjölskyldunni,“ svarar Finnur Yngvi án minnstu umhugsunar þegar hann er spurður að því í hverju lífsgæði þar á svæðinu felist öðru fremur. „Það er bara atriði númer eitt, fyrst og fremst. Hér ver maður miklu, miklu minni tíma í umferðinni en nokkurn tímann fyrir sunnan. Maður eyðir einfaldlega ekki miklum tíma í akstur og aðrar tilfærslur hérna í Hrafnagilshverfinu. Einhverjum kann að þykja langt að koma til okkar frá Akureyri en það er þá af því að byggðin slitnar og þú upplifir kyrrðina á milli, þetta eru samt ekki nema 12 mínútur úr miðbæ Akureyrar,“ segir Finnur og kímir við. „Við vanmetum oft hversu mikill tími fer í bara að komast á milli staða og allt sem gefur manni meiri tíma með fjölskyldunni, fleiri gæðastundir, er bara svo mikils virði.“
Finnur Yngvi nefnir íþróttaiðkun barna sem annað dæmi í þessu sambandi. „Fyrir börn í Eyjafjarðarsveit þá fer stór hluti íþróttastarfsins fram fyrir klukkan fjögur, sérstaklega þau yngri og er stílað inná að það fari saman með frístund þeirra barna. Það eru svo mikil þægindi fólgin í þessu, bæði fyrir þá sem búa hér í Hrafnagilshverfinu og eins fyrir þá sem búa í dreifðari byggð sveitarfélagsins.“
Lifandi félagsstarf fyrir alla
Að sögn Finns birtist samheldni íbúanna í sveitarfélaginu einna best í hinu viðmikla og fjölbreytta félagsstarfi sem þar er í boði. „Allir sem hafa á annað borð áhuga á að taka þátt í félagsstarfi hér á svæðinu geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Við erum með mjög virka félagsmiðstöð fyrir unglingana, um leið og félagsstarf eldri borgara er mjög flott þar sem þau hittast einu sinni í viku í skipulögðu félagsstarfi ásamt því að hittast þrisvar í viku í mismunandi líkamsþjálfun, sundleikfimi, styrktaræfingum og slíku. Hér eru rekin þrjú kvenfélög, við erum með björgunarsveit með því starfi sem því fylgir, hestamannafélag, Freyvangsleikhúsið sem er mjög lifandi áhugaleikhús, Lionsklúbbur , og svo má lengi telja. Það er bara svo mikið af starfi sem hver og einn getur tekið þátt í.“ Finnur Yngvi bætir svo við starfi íþróttafélagsins Samherja, sem nær frá yngstu flokkum barnastarfs upp í eldri borgara. „Það er mikil fjölbreytni félagsstarfs í þessu þétta og samheldna samfélagi.“
Hin dýrmæta kyrrð dreifbýlisins
Að sögn Finns Yngva er andrúmsloftið afslappað í Hrafnagilshverfinu og kyrrðin allt um lykjandi, nokkuð sem nútímamaðurinn skynjar í auknum mæli sem lífsgæði. „Fólkið hér í hverfinu sækir mest af þjónustu til Akureyrar, sem er 10 mínútna akstur í burtu, og fyrir bragðið er mjög mikil ró yfir hverfinu. Gestir sem búa á höfðborgarsvæðinu hafa lýst því sem svo að hálfur dagur hér í hverfinu sé fyrir þau svipuð upplifun og fyrir langþreyttan einstakling að fá loks hvíld. Kyrrðin einfaldlega endurnærir mann og þegar þú hefur einu sinni upplifað þau lífsgæði, sem verða dýrmætari eftir því sem atið og asinn í nútímanum eykst, þá vill maður helst ekki sleppa höndunum af þeim aftur. Það er bara svo mikil vellíðan sem fylgir því að lifa í þessu nærandi umhverfi frá degi til dags, og það held ég að eitthvað sem sífellt fleiri sakna og sækja í auknum mæli í.“ Finnur bætir því við að í dreifbýlinu sunnan við Hrafnagilshverfið sé svo hægt að komast í alvöru kyrrð, náttúrulegt umhverfi þar sem þögnin umvefur mann. „Þar er takmörkuð umferð í stórbrotnu landslagi og lífsgæðin sem eru fólgin í því að koma þangað og draga djúpt andann – í kyrrð og nálægð við náttúruna – eru bara einstök.
Lágreist byggð og dreifð
Sveitastjórnin í Eyjafjarðarsveit hefur um árabil, að sögn Finns Yngva, lagt á það ríka áherslu að viðhalda framangreindum lífsgæðum á svæðinu, meðal annars með því að fylgja skýrri stefnu þegar kemur að skipulagsmálum. „Hún felst einna helst í lágreistri byggð og dreifðri, frekar en að byggja hátt upp. Það er víða verið að byggja upp og þéttar en við gerum hér, og það er einn búsetukosturinn. Við erum að bjóða upp á annars konar búsetukost,“ bendir hann á. „Fókusinn er algerlega á þess konar skipulagi og við vorum til að mynda nýverið að vinna sameiginlegan aðalskipulagshluta með Svalbarðsströnd í Vaðlaheiðinni, sameiginlegt svæði þar sem við vorum að samræma skipulagið hjá okkur. Þar var þessi áhersla allsráðandi, að skipuleggja einbýlishúsabyggð með stórum lóðum þar sem væru að hámarki fjórar lóðir á hektara. Þá er lóðin í kringum 2-3000 fermetrar og unnið út frá því. Gróðursæld, friðsæld, velsæld eru þar lykilorðin og meiningin að búa til kyrrð og festa hana í sessi. Því hún er að verða, í sífellt auknum mæli, áþreifanleg og eftirsótt lífsgæði.“
Næg atvinna – fjölbreytt störf
Hér í eina tíð var það nánast öruggt mál að ungt fólk utan af landi sem flutti suður til Reykjavíkursvæðisins til að ganga í háskóla hafði í raun ekki færi á að flytja aftur heim því þar biðu svo takmörkuð tækifæri til atvinnu við þeirra hæfi. Finnur Yngvi segir þetta gerbreytt nú til dags. „Helsta breytingin er sú að allskonar möguleikar hafa opnast upp á gátt hvað fjarvinnu varðar. Sérfræðingar geta oft valið sér búsetuna núorðið, óháð því hvað höfuðstöðvar fyrirtækisins sjálfs eru. Hér á svæðinu er svo landbúnaðurinn vitaskuld afar fyrirferðarmikill enda Eyjafjörðurinn oft nefndur matarkista Íslands með hátt í 10% af mjólkurframleiðslu landsins. Ferðaþjónustan lætur sífellt meira að sér kveða og til Eyjajarðarsveitar tilheyra Skógarböðin með alla sína starfsemi, ásamt fleiri flottum ferðaþjónustufyrirtækjum. Byggingageirinn hér er í mikilli sókn enda fyrirliggjandi deiliskipulag hér í jaðri Hrafnagils með 200 íbúðum. Það er líka mikil starfsemi hjá sveitarfélaginu sjálfu enda mikil uppbygging í gangi og atvinnuframboð og fjölbreytni eykst hér stöðugt, ekki síst af því við erum jafnt og þétt að efla þjónustuna við íbúana. Meðal annars erum við að opna nýja leikskóla á næsta ári og þá margfaldast þjónustustigið við fólk með börn á leikskólaaldri. Hér er því hugsað á margan hátt til framtíðar, þó við gleymum aldrei að njóta líðandi stundar því við leggjum áherslu á að viðhalda þeim lífsgæðum sem einkenna sveitina okkar fögru“ segir sveitarstjórinn Finnur Yngvi að endingu.
Texti: Jón Agnar Ólason