12.06 – 31.10 2019

Með sýningunni „HEIMAt – tveir heimar“  er því fagnað að í ár eru liðin 70 ár frá því að stór hópur Þjóðverja sigldi með strandferðaskipinu Esju og öðrum skipum í kjölfarið til Íslands árið 1949.

Marzena Skubatz

Ástæðan fyrir ferðum hópsins var sú að það vantaði fólk í sveitir landsins vegna mikilla samfélagsbreytinga sem höfðu orðið eftir seinna stríð. Auglýst var eftir vinnuafli í Þýskalandi sem varð til þess að á fjórða hundrað manns kom til starfa á íslenskum sveitabæjum og um helmingur þeirra, mestmegnis konur, settist hér að. Afkomendurnir eru orðnir fjölmargir.

HEIMAt – tveir Árbæjarsafn - heimar

Ljósmyndaverkefnið „HEIMAt“ eftir Marzenu Skubatz er miðpunktur sýningarinnar og gefur innsýn inn í líf núlifandi kvenna úr þessum hópi. Farið er með áhorfandann í ljóðrænt ferðalag þar sem saga þeirra og minningar eru í aðalhlutverki. Snert er við gleðilegum jafnt sem tregablöndnum hliðum tilverunnar, sem gefa innsýn í heim þeirra sem hafa þurft að rífa upp rætur sínar og festa þær á nýjum og framandi stað. 

HEIMAt-–-tveir-heimar-guests

Til að gera þeim tveim heimum, Íslandi og Þýskalandi, sem vísað er til í sýningartitlinum, enn frekari skil, eru auk „HEIMAt“, sögulegar ljósmyndir um málefnið á sýningunni.

Annars vegar er um að ræða áhrifamiklar ljósmyndir frá Rauða Kross Íslands sem Ljósmyndasafn Reykjavíkur varðveitir. Þær sýna eyðileggingu umhverfisins í borgum og bæjum Þýskalands eftir loftárásir en Rauði Kross Íslands sendi fulltrúa sinn þangað eftir stríðslok og kom hann til baka með myndefni sem í kjölfarið var svo sýnt fyrir almenning á Íslandi.

Ólafur K. Magnússon, frumkvöðull í blaðaljósmyndun á Íslandi, mætti við Reykjavíkurhöfn 8. júní árið 1949 til að skrásetja þann viðburð sem koma Esju var með fyrsta stóra innflytjendahópinn á Íslandi á 20. öld innanborðs. Fréttamyndirnar fimm úr myndasafni Morgunblaðsins sýna hópinn á komudaginn. Einnig má segja að þessar merkilegu myndir tengi þessa tvo umræddu heima saman í gegnum sjóferðina frá Lübeck í Þýskalandi og komuna til Reykjavíkurhafnar. 

Lúðvíg á ferð sinni um Þýskland
Lúðvíg á ferð sinni um Þýskland

„Heima“ er ekki landfræðilegt hugtak heldur er það inni í manni sjálfum“ var haft eftir rússneska rithöfundinum og andófsmanninum Andrej Sinjawski (1925-97) og á sú tilvitnun vel við um þessa sýningu. Fyrir utan það að vera minnisvarði um þýsku innflytjendurna og líf þeirra þá minnir „HEIMAt – tveir heimar“ okkur líka á að alla daga er og hefur verið fólk  að flytjast milli landa í heiminum vegna stríðs eða annarra óviðunandi aðstæðna . Fólksflutningar eru því ekki tímabundnir heldur viðvarandi ástand sem þarf að skoða í stóru, sögulegu samhengi. Í því ferli er hlutverk mynda og minninga gríðarlega mikilvægt og til þess að þær falli ekki í gleymskunnar dá þarf að sýna þær – aftur og aftur –  til að þekking á fortíðinni haldist og festist í samtímanum hverju sinni.   

Yfirþyrmandi eyðileggingin í Þýskalandi.
Yfirþyrmandi eyðileggingin í Þýskalandi.

Árbæjarsafn – Borgarsögusafn Reykjavíkur
Kistuhyl 4
110 Reykjavík
[email protected]
+354 411 6304