Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18.maí af alþjóðaráði safna. Í ár er yfirskriftin, Mikill er máttur safna, en söfn geta og hafa mátt til að hrífa og breyta heiminum. Í tilefni dagsins er frítt inn á mörg söfn, eins og Listasafn Reykjavíkur, Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands. Það eru 35.000 söfn í vel yfir eitt hundrað löndum sem taka þátt í þessum degi, sem var stofnað til árið 1977. Eitt að þeim söfnum sem vert er að heimsækja er Ásmundarsafn í Laugardal. Safn sem er helgað verkum myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og var opnað árið 1983, í einstæðu húsi sem listamaður hannaði sem heimili og vinnustofu, og byggði á árunum 1942-1959. Garðurinn umhverfis húsið, er líka einstakur, með fjölda höggmynda eftir þennan frumkvöðul höggmyndalistar á Íslandi. Sýningin í safninu núna heitir Loftskurður, Rósa Gísladóttir, Ásmundur Sveinsson. Þarna mætast myndhöggvarar tveggja tíma í samtali. Rósa (1959) hefur á ferli sínum sem myndhöggvari fengist við ýmsan efnivið, en þekktust er hún fyrir gifsskúltúra í ólíkum stærðum og formum. Sýningin stendur til 7. ágúst.
Reykjavík 17/05/2021 12:44 – 13:33 : A7R IV – A7C : FE 1.8/20mm G – FE 2.5/40mm G
Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson